Lífið

Miðaverð hækkar á leikritið Mary Poppins

Freyr Bjarnason skrifar
Miðaverð hækkar meðal annars á söngleikinn vinsæla Mary Poppins.
Miðaverð hækkar meðal annars á söngleikinn vinsæla Mary Poppins.

Miðaverð á haustsýningar Mary Poppins hefur hækkað um átta prósent og er komið í 5.950 krónur. Sýningin er ein sú viðamesta sem hefur verið sett upp hérlendis og miðaverð hefur fyrir vikið verið í hærri kantinum.

Hækkunin er til komin vegna þeirra launahækkana sem hafa verið á síðustu misserum. Miðaverð hækkar einnig á aðrar sýningar Borgarleikhússins og verður að meðaltali átta prósentum hærra en áður.

Aðspurður kannast Magnús Geir Þórðarson Borgarleikhússtjóri ekki við að kvartað hafi verið yfir miðaverðinu á söngleikinn.

„Hér er um gríðarlega umfangsmikla og glæsilega sýningu að ræða og öllu tjaldað til. Ég vil benda á að miðaverðið á Íslandi á Mary Poppins er mjög lágt miðað við miðaverðið í London og á Broadway. Þar er fólk að borga tugi þúsunda fyrir miða á svona sýningu. Við erum afskaplega stolt af því að geta boðið upp á svona glæsilega sýningu á Íslandi,“ segir hann og bætir við að fólk geti keypt sér leikhúskort á góðum kjörum þar sem Mary Poppins sé með í pottinum.

Margir hafa beðið spenntir eftir geisladiski með tónlist úr söngleiknum. Magnús Geir vonast til að hann verði tilbúinn áður en sýningar hefjast aftur í haust.

„Vinnan er háð samþykki stórra aðila úti í heimi en við erum að undirbúa útgáfu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.