Lífið

Verkfræðingur syngur um Árbæ

Freyr Bjarnason skrifar
Helgi Þór Ingason í stofunni þar sem platan var tekin upp.
Helgi Þór Ingason í stofunni þar sem platan var tekin upp. fréttablaðið/valli

Vélaverkfræðingurinn Helgi Þór Ingason, sem starfar meðal annars sem dósent við Háskólann í Reykjavík, hefur gefið út sína fyrstu plötu, Gamla hverfið.

Titillag plötunnar er óður til Árbæjarhverfisins þar sem hann ólst upp. „Í þessum texta er verið að yrkja um kennileiti sem gamlir Árbæingar þekkja vel,“ segir Helgi Þór og bætir við:

„Á umslagi plötunnar er loftmynd af Árbænum frá 1977. Þá var ég tólf ára. Þetta er svo mögnuð mynd. Þarna sést enginn Grafarvogur eða Grafarholt. Þarna sér maður hvað þetta var mikil sveit.“

Helgi Þór samdi plötuna á 20 til 25 ára tímabili og er að láta gamlan draum rætast með henni. Hann spilar á píanó og honum til halds og trausts voru Einar Clausen, Matthías Stefánsson, Einar Sigurðsson og Karl Pétur Smith.

Eftir að Helgi Þór flutti að heiman bjó hann á mörgum stöðum en fyrir fjórum árum flutti hann heim og keypti sér hús í Árbænum. Platan var tekin upp þar í stofunni á tveimur kvöldum í febrúar.

„Það var kveikt á kertaljósum og búin til hugguleg stemning með svakalega fínu útsýni yfir Reykjavík. Þetta voru björt og falleg vetrarkvöld og mjög skemmtileg stemning, sem átti ábyggilega þátt í að móta þann anda sem er á plötunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.