Lífið

Stórkostlegt að hitta Simmons

Freyr Bjarnason skrifar
Þráinn Árni Baldvinsson með Gene Simmons, bassaleikara Kiss.
Þráinn Árni Baldvinsson með Gene Simmons, bassaleikara Kiss.
Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar og Kiss-aðdáandi, hitti Gene Simmons, bassaleikara Kiss og aðra meðlimi rokksveitarinnar, fyrir tónleika hennar í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld.

Aðdáendaklúbbur Kiss á Íslandi skipulagði hópferð á tónleikana.

„Þetta var stórkostlegt,“ segir Þráinn Árni um fundinn með Simmons. „Gene talaði fallega um land og þjóð og gaf sér góðan tíma til að spjalla og að sjálfsögðu krota á plötur fyrir mig. Það er auðvitað frábært að fá að hitta svona meistara. Hann var í miklu stuði og lék á alls oddi,“ segir Þráinn, sem var að hitta Simmons í annað sinn.

„Gene er maðurinn sem maður var pínu smeykur við í „denn“ og sögurnar sem maður heyrði um hann voru rosalegar en flestallar auðvitað ósannar. Svo er þetta bara hinn mesti öðlingur.“

Aðspurður segist Þráinn hafa skemmt sér frábærlega á sínum sjöttu Kiss-tónleikum á ævinni.

„Að sjá Kiss er alltaf stórfenglegt. Lögin eru auðvitað meiriháttar og svo spara þeir ekkert þegar kemur að sprengingum, ljósasýningu og sviðsbúnaði. Þetta er flottasta tónleikabandið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.