Bakþankar

Hin óþekkjanlega spegilmynd

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Nú fer þessari annarri meðgöngu minni senn að ljúka. Hún hefur verið óvenju fljót að líða enda ekki mikill tími til að velta sér of mikið upp úr væntanlegri fjölgun. Maður er reynslunni ríkari og veit hvað er í vændum. Nýtur þess að sofa heila nótt fram á síðasta dag.

Skrefin eru hins vegar að þyngjast núna, fataskápurinn að minnka, brjóstsviðatöflurnar hakkaðar og þráðurinn að styttast. Bara sú athöfn að standa upp úr sófanum er þrautin þyngri og fyrir mér hefur verið einstaklega heitt í lofti í sumar. Spegilmyndin verður óþekkjanlegri með hverjum deginum og hælaskórnir komnir aftast í fataskápinn.

Þrátt fyrir að þetta sé meðganga númer tvö hjá undirritaðri er þetta í fyrsta sinn sem gengið er í gegnum óléttu á heimavelli. Það sem hefur komið mér í opna skjöldu er áhuginn, já eða athyglin sem líkami óléttrar konu fær. Sérstaklega svona á lokasprettinum. Það er eins og að það sé skotleyfi á útlit óléttra kvenna. Fáir hika við að segja sína skoðun á stækkandi ummáli þeirra. Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafn meðvituð um útlit mitt. Meðvituð um kúluna sem því miður gengur lítið að reyna að klæða af sér núna.

Ég get hins vegar ekki gert upp við mig hvort mér finnist þessi athygli þægileg eða ekki. Auðvitað er gaman að heyra úr öllum áttum að maður líti vel út eða að maður sé nettur, beri þetta vel og svo framvegis. Það er alltaf gaman að fá hrós og ekki síst núna þegar sjálf spegilmyndin kemur manni spánskt fyrir sjónir. Svo eru það bannorðin „myndarleg“, „blómstra“ og „stór“ sem fá mann til að glotta vandræðalega og gott ef ekki rúlla augunum smá í leiðinni.

Það er þunn lína milli þess að hrósa og hreinlega móðga, sérstaklega þegar um ræðir einstakling sem er með hormónasveiflur sem gjarna er líkt við jarðsprengjusvæði.






×