Lífið

Mikil gróska í reggítónlist

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Hljómsveitin Amaba Dama er á meðal þeirra sem munu spila á reggítónlistarhátíð á Faktorý á laugardag. Frá hægri eru Kolfinna Nikulásdóttir, Steinunn Jónsdóttir og Gnúsi Yones.
Hljómsveitin Amaba Dama er á meðal þeirra sem munu spila á reggítónlistarhátíð á Faktorý á laugardag. Frá hægri eru Kolfinna Nikulásdóttir, Steinunn Jónsdóttir og Gnúsi Yones.
Næstkomandi laugardag mun framandi stemmning svífa yfir vötnum á skemmtistaðnum Faktorý, en þá verður haldin allsherjar reggíhátíð á staðnum. Hátíðin byrjar klukkan 14 með listasýningu, basar, „soul food“ og tónlist en um kvöldið munu hljómsveitirnar Amaba Dama, Ojba Rasta og Hjálmar stíga á stokk ásamt fleirum.

Steinunn Jónsdóttir, önnur tveggja söngkvenna í hljómsveitinni Amaba Dama, segir mikla grósku í reggítónlist hér á landi. „Mér finnst áhuginn fyrir reggítónlist alltaf að verða meiri, enda sést það best á vinsældum bæði Hjálma og Ojba Rasta. Það myndast líka iðulega mjög skemmtileg stemmning á tónleikum og fólk dansar eins og það eigi lífið að leysa.“

Steinunn segir hljómsveitirnar þrjár sem koma fram allar vera að gefa úr nýtt efni sem mun fá að hljóma í bland við eldra.

Tíu heppnir tónleikagestir eiga kost á að vinna átta daga passa á tónlistarhátíðina Rototom Sunsplash sem haldin verður 17. til 24. ágúst á Spáni.

Það eru meðlimir í plötusnúðahópnum RVK Soundsystem sem standa fyrir hátíðinni. Tónleikarnir byrja klukkan 22 og aðgangseyrir er 2.000 krónur.

„Ég held að ég geti lofað mjög góðri stemmningu og hvet alla til að koma og dansa og upplifa smá sumarfíling,“ segir Steinunn að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.