Lífið

Flott borð eftir íslenskan hönnuð

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Erla Sólveig Óskarsdóttir, húsgagna- og iðnhönnuður, í sófa og við innskotsborð sem hún hannaði.
Erla Sólveig Óskarsdóttir, húsgagna- og iðnhönnuður, í sófa og við innskotsborð sem hún hannaði. Fréttablaðið/anton
„Mér fannst vanta borð sem næði yfir sófann. Það er nú kannski til að ýta undir leti en það er svo þægilegt að þurfa ekki að halla sér fram eða standa upp þegar maður situr í sófanum og vill leggja eitthvað frá sér,“ segir húsgagnahönnuðurinn Erla Sólveig Óskardóttir sem hannaði innskotsborðin „Hyrna“.

Erla Sólveig lærði iðnhönnun í Danmarks Design Skole Danmörku en segir að mikil áhersla hafi verið lögð á húsgagnahönnun í náminu. Að sögn Erlu Sólveigar hannaði hún borðin eftir að hafa hannað sófa sem henni fannst vanta borð við.

„Þetta eru borð sem fer lítið fyrir og er bæði hægt að stafla saman og hafa hvort í sínu lagi. Það er einnig hægt að fella þau saman í þunnan kassa og því auðvelt að ferðast með þau.“

Borðin eru framleidd í Vogunum og segir Erla að hún hafi verið heppin að fá góða iðnaðarmenn í verkið. „Framleiðsla hefur mikið færst út fyrir landsteinanna og það er ekki gefið að fá iðnaðarmenn sem eru tilbúnir til að taka að sér svona verk og gera það vel.“

Borðin eru seld í Kraumi og fást í eik. Hugmyndin er að í framtíðinni verði hægt að fá þau í fleiri litum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.