Lífið

Dæmir alþjóðlegar kattaræktarsýningar

Freyr Bjarnason skrifar
Marteinn Tausen, framkvæmdastjóri Hverfisgallerís, dæmir á kattaræktarsýningu einu sinni í mánuði. Annar af köttunum hans heitir romsa.
Marteinn Tausen, framkvæmdastjóri Hverfisgallerís, dæmir á kattaræktarsýningu einu sinni í mánuði. Annar af köttunum hans heitir romsa. fréttablaðið/anton
Marteinn Tausen, framkvæmdastjóri Hverfisgallerís við Hverfisgötu, er mikill kattavinur og fer einu sinni í mánuði til útlanda til að dæma kattaræktarsýningar.

„Upphafið af þessu er að ég tók þátt í að stofna Kynjaketti, kattaræktarfélag Íslands, árið 1990,“ segir Marteinn.

Í framhaldinu gengu Kynjakettir inn í stærsta alþjóðlega kattaræktarsamband heims, FIFe, sem stendur fyrir kattaræktarsýningum víða um heim, og fór Marteinn í þjálfun hjá samtökunum til að verða dómari. „Það er langt og strangt ferli og dýrt. En þar sem ég er með ástríðu fyrir þessu ákvað ég að gera þetta og í framhaldinu fékk ég réttindi til að dæma á sýningum þessara samtaka.“

Aðspurður segist Marteinn oftast fara einu sinni í mánuði til útlanda. Mest fer það eftir því hvernig stendur á hjá honum í vinnunni. Hann er eini kattadómarinn á Íslandi enda segir hann ekki mikla hefð fyrir sýningum sem þessum hér. Þó eru haldnar hér tvær sýningar á ári. Um tíma voru kattadómararnir reyndar tveir þegar Svíi sem var búsettur hér á landi dæmdi einnig á erlendis.

Kattadómgæslan er fyrst og fremst áhugamál hjá Marteini en hann lagði engu að síður mikið á sig til að verða alþjóðlegur dómari. „Ég var í ein fimm ár í þessari þjálfun. Ekki stanslausri en með því að fara út á sýningar og námskeið.“

Sjálfur á Marteinn tvo ketti. Þeir eru af tegundinni Cornish Rex og heita Sveskja og Romsa.

Marteinn hóf rekstur á Hverfisgalleríi í febrúar síðastliðnum og segir hann starfsemina hafa gengið mjög vel. Galleríið er í samstarfi við tólf listamenn. Tíu þeirra eru starfandi og einnig selur það verk úr tveimur dánarbúum.

Í dag lýkur sýningu á verkum Magnúsar Kjartanssonar og næsta sýning hefst á fimmtudaginn þegar verk belgísku listakonunnar Jeanine Cohen verða sýnd.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.