Lífið

Opnuðu heilsuhof í gamalli sundlaugasjoppu á Seltjarnanesi

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Systurnar Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur reka verslunina Systrasamlagið. Þar er meðal annars hægt að fá heilsusamlegt góðgæti og jógafatnað.
Fréttablaðið/Stefán
Systurnar Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur reka verslunina Systrasamlagið. Þar er meðal annars hægt að fá heilsusamlegt góðgæti og jógafatnað. Fréttablaðið/Stefán
„Við systur erum aldar upp hérna á þessum bletti. Skúrinn hefur staðið tómur í einhvern tíma og við ákváðum bara að taka af skarið og opna litla verslun,“ segir Jóhanna Kristjánsdóttir, annar eigandi Systrasamlagsins sem opnaði síðastliðinn laugardag við hlið sundlaugarinnar á Seltjarnarnesi.

Verslunina rekur Jóhanna ásamt Guðrúnu systur sinni en í Systrasamlaginu er hægt að fá allt frá lífrænu kaffi og heilsusamlegu góðgæti til jógafatnaðar og snyrtivara.

„Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel. Fólk er rosalega forvitið og fyrir suma er þetta bara eins og viss upplifun, það býst kannski ekki við svona verslun hér,“ segir Jóhanna. Skúrinn við sundlaugina hýsti áður fyrr Skara-sjoppu, en þar gat fólk gætt sér á pylsu og kók eftir sundferðirnar eða svokölluðum Svindlsamlokum með osti og kokteilsósu.

Jóhanna segir hins vegar að tími gömlu sjoppanna sé að líða undir lok þar sem sífellt fleiri snúi sér að heilsusamlegra líferni. „Ég held að þessar sjoppur séu bara búnar. Allavega þær sem eru staðsettar fyrir framan líkamsræktarstöðvar. Fólk er rosalega ánægt með að fá einhvern annan kost. Heilsuvörurnar hafa líka batnað síðustu árin og eru nú mun bragðbetri en þær voru jafnvel í upphafi.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×