Lífið

Rekur ferðaþjónustu og myndlistargallerí

Helena Hansdóttir býður nú ferðamönnum upp á dagsferðir á Mercedes-Benz Sprinter jeppa sem hún keypti í vor. Helena rekur ferðaþjónustuna Helena Travel Iceland.
Helena Hansdóttir býður nú ferðamönnum upp á dagsferðir á Mercedes-Benz Sprinter jeppa sem hún keypti í vor. Helena rekur ferðaþjónustuna Helena Travel Iceland. fréttablaðið/arnþór
„Þetta sameinar algjörlega allt sem mér finnst skemmtilegt. Að vera með fólki og að spjalla við það, um Ísland og íslenska náttúru,“ segir myndlistarkonan Helena Hansdóttir Aspelund, sem býður ferðamönnum upp á dagsferðir frá Reykjavík undir nafninu Helena Travel Iceland.

Helena keypti litla rútu í vor en hún starfaði áður í jeppabransanum hér á landi og er því með meirapróf. „Ég býð upp á þrjár ferðir, en markhópurinn er ungt fólk á öllum aldri. Hægt er að fara Gullna hringinn, sem endar í heita læknum í Reykjadal, suðurströndina þar sem farið er í jöklagöngu á Sólheimajökli og í Þórsmörk.“

Helena býður upp á ferðir alla daga vikunnar. Hún segir vinnudagana langa og því hyggst hún bæta við sig einum starfsmanni til að minnka álagið. „Ég fæ fljótlega einhvern til þess að keyra á móti mér, þetta er svolítið mikið eins og staðan er núna. En þetta er alveg hrikalega skemmtilegt.“

Helena fékk verslunina 12 tóna til þess að gefa henni nýja og ferska tónlist sem hún spilar fyrir ferðamennina á leiðinni. „Ég er með leiðsögn á leiðinni á áfangastað en á leiðinni til baka er fólk oft orðið þreytt, enda búið að vera að allan daginn. Þá finnst því bara gott að upplifa náttúruna og landslagið og hlusta á íslenska tónlist.“

Auk þess að reka ferðaþjónustufyrirtækið er Helena nýbúin að opna myndlistargallerí. Hún ætlar að tvinna þessi störf saman. „Mér finnst þetta gott kombó. Við stefnum að því að finna húsnæði undir galleríið og ferðaþjónustuna, og blanda þar með saman sölu á listaverkum og sýningum, og stað þar sem við getum geymt bíldekkin,“ segir Helena í léttum dúr.

Hægt er að kynna sér þjónustuna á vefsíðunni Htice.is og á Kexland.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.