Fastir pennar

Úrelt lög um ríkisstarfsmenn

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Niðurskurðarhópur ríkisstjórnarinnar, sem var skipaður í síðustu viku, á að „fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna“.

Eitt af verkefnum nefndarinnar er að skoða hvort fækka megi ríkisstarfsmönnum. Forsætisráðherrann hefur fyrst og fremst sett það í samhengi við stærri skipulags- eða kerfisbreytingar eins og sameiningu stofnana.

Það hlýtur þó líka að mega fækka starfsfólki hjá einstökum stofnunum án stórfelldra kerfisbreytinga. En til þess þarf að gera breytingar á því lagaumhverfi sem opinber rekstur býr við.

Til þessa hefur verið mjög erfitt að segja ríkisstarfsmönnum upp störfum nema starfið þeirra sé beinlínis lagt niður, eða að þeir hafi gerzt sekir um alvarleg afglöp í starfi og fengið áminningu. Ástæðan er sérstök lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, sem eru allt öðruvísi en á almennum vinnumarkaði.

Í raun er alveg fráleitt að á síðasta kjörtímabili, þegar tekjur ríkisins skruppu saman og fara þurfti vel með hverja einustu krónu, skyldi ekkert vera hróflað við þessari úreltu vinnulöggjöf opinbera geirans.

Kannanir á meðal forstöðumanna opinberra stofnana hafa ítrekað sýnt að þeir eru hundóánægðir með starfsmannalögin og telja þau standa í vegi fyrir skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Stór hluti telur að þeir gætu bætt þjónustu stofnunarinnar ef þeir segðu upp hluta starfsmannanna og réðu nýja í þeirra stað. Það segir okkur líka að það væri hægt að halda þjónustu margra stofnana óbreyttri en láta verkminnstu starfsmennina fara.

Þetta er aldrei gert í ríkisstofnunum; einhverra hluta vegna er það afar fátítt að menn fái áminningu fyrir að afkasta litlu í vinnunni. Þó blasir við að einhverjir standa sig síður en aðrir, í ríkisstofnunum rétt eins og í einkafyrirtækjum. En ríkisstofnanir sitja uppi með hóp starfsfólks sem stendur sig ekki, en er ekki hægt að losna við.

Því hefur stundum verið haldið fram að ef sömu reglur giltu hjá ríkinu og einkafyrirtækjum myndu yfirmenn segja upp fólki eftir geðþótta; fara eftir því hvort þeim félli vel eða illa við það, en ekki eftir því hvernig það hefði staðið sig. Reynslan af almennum vinnumarkaði sýnir þó að slíkar uppsagnir eru fátíðar. Stjórnendur í einkafyrirtækjum reyna að forðast uppsagnir í lengstu lög, en verða að taka ákvarðanir með hag fyrirtækjanna að leiðarljósi. Ef það kemur ekki nóg í kassann verður að skera niður útgjöldin og víðast hvar er slíkt erfitt án þess að fækka fólki.

Það eru í rauninni engin rök fyrir því að ekki gildi sömu reglur um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Núverandi ríkisstjórn hlýtur að átta sig á mikilvægi þess að skera þetta kerfi upp. Ef það verður ekki gert er ekki víst að henni takist það ætlunarverk sitt að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum án þess að halda áfram að hækka skattana eins og var ævinlega lausnarorðið hjá fyrri ríkisstjórn.






×