Lífið

Beint frá Harlem í New York á skemmtistaðinn Harlem

Sara McMahon skrifar
„Það er gaman að fljúga burt frá Harlem til þess eins að lenda aftur á Harlem,“ segir bandaríski tónlistarmaðurinn Alap Momin um tónleika hljómsveitarinnar Mrc Riddims á skemmtistaðnum Harlem í kvöld. Alap skipar hljómsveitina ásamt Merc Yes, en tvíeykið er ættað frá New York, nánar tiltekið frá Harlem-hverfinu, og leikur taktþunga partýtónlist.

Alap hefur heimsótt Ísland í fjórgang, þá með hávaðarappsveitinni Dälek. „Ísland er á topp fimm listanum mínum yfir uppáhaldsstaðina mína. Hér er mikið af hæfileikafólki og það sem meira er, þá hef ég aldrei hitt leiðinlegan Íslending, þótt ég sé viss um að þeir leynist hér einhvers staðar,“ segir Alep og Merc tekur undir. „Ég hef aðeins verið hér í tæpan sólarhring og hef ekki hitt neinn sem kalla mætti leiðinlegan.“

Þeir félagar eru góðir vinir og samstarfsmenn tónlistarmannsins Curver og eru hér á landi fyrir hans tilstuðlan. „Við erum á leið á G! Festival í Færeyjum og ákváðum að heimsækja Curver í leiðinni, úr varð þetta litla tónleikaferðalag,“ segir Alap, en tvíeykið kemur einnig fram á LungA á Seyðisfirði.

Tónlistarmennirnir voru á leið í ferðalag um Gullfoss og Geysi þegar Fréttablaðið náði af þeim tali í gær og hlökkuðu þeir mikið til ferðalagsins.

Tónleikar Mrc Riddims fara fram á Harlem í kvöld og hefjast klukkan 22.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.