Lífið

Vill frekar styrkja gott málefni en halda djammveislu

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Þórunn Antonía heldur tónleika á Kexinu þann 28. júlí næstkomandi til styrktar Kvennaathvarfinu
Þórunn Antonía heldur tónleika á Kexinu þann 28. júlí næstkomandi til styrktar Kvennaathvarfinu
„Ég er voða góð að skipuleggja afmælisveislur fyrir annað fólk en mér féllust algjörlega hendur þegar ég fór að hugsa um mína eigin. Ég nennti ekki að halda einhverja djammveislu og fékk þá hugmynd að nýta tækifærið og styrkja gott málefni,“ segir Þórunn Antonía Magnúsdóttir, sem í tilefni af komandi þrítugsafmæli stendur fyrir tónleikum til styrktar Kvennaathvarfinu.



Tónleikarnir verða haldnir á Kexinu þann 28. júlí næstkomandi og munu margir af stærstu tónlistarmönnum landsins koma fram. Má þar nefna Magnús og Jóhann, Bubba Morthens, Valdimar Guðmundsson, Högna Egilsson og Sigríði Thorlacius, Mr. Sillu, Myrru Rós, Snorra Helgason og Ylju, en einnig ætlar Þórunn Antonía sjálf að stíga á svið og flytja nýtt efni ásamt Bjarna M. Sigurðssyni.



Að sögn Þórunnar voru allir listamennirnir boðnir og búnir til að leggja málefninu lið. „Það voru allir sem ég talaði við ótrúlega jákvæðir og tilbúnir til að vera með. Enda er málefnið verðugt því allir verða að eiga eitthvað skjól að leita í og þá sérstaklega konur og börn sem búa við ofbeldi.“



Þórunn Antonía hvetur að sjálfsögðu alla til að mæta á tónleikana og styðja um leið gott málefni. „Ég held að það verði enginn svikinn af þessari skemmtun og það er ekki verra að tónleikagestir leggja inn gott karma í leiðinni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.