Lífið

Esperantistar flykkjast til Íslands

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Steinþór Sigurðsson situr í undirbúningsnefnd heimsþingsins sem fram fer í Hörpu um helgina.
Steinþór Sigurðsson situr í undirbúningsnefnd heimsþingsins sem fram fer í Hörpu um helgina. fréttablaðið/valli
„Hugsjónin á bak við esperantó er sú að fólk á að standa jafnfætis í samskiptum,“ segir Steinþór Sigurðsson, sem situr í undirbúningsnefnd heimsþings esperantista sem fram fer í Hörpu dagana 20.-27. júlí.

Dagskrá heimsþingsins fer öll fram á esperantó en að sögn Steinþórs verður hægt að sækja ýmsa fyrirlestra og fundi um málefni hreyfingarinnar. Þá verður einnig hægt að hlýða á fyrirlestra um málefni tengd skandinavískum glæpasögum og fiðlusmíð, svo eitthvað sé nefnt.

Þema þingsins í ár er tungumálaleg sanngirni í samskiptum á milli málsvæða. Þetta er í annað sinn sem heimsþing esperantista fer fram í Reykjavík en áður var það haldið hér á landi árið 1977.

Steinþór segir að á Íslandi megi finna þó nokkra esperantista. „Það er talsverður fjöldi af fólki sem hefur lært esperantó á einhverjum punkti, en það eru kannski um 30 manns sem teljast virkir í starfinu,“ segir Steinþór, sem er sjálfur reiprennandi í tungumálinu.

Um 1.000 gestir frá 55 löndum verða viðstaddir heimsþingið. Esperantó var búið til seint á 19. öld af pólskum augnlækni, Ludvig Zamenhof, og átti málið að leysa tungumálavanda heimsbyggðarinnar. Heimsþing esperantista hafa síðan verið haldin árlega frá árinu 1905. Margar íslenskar bækur hafa verið þýddar yfir á esperantó en þar má meðal annars nefna Brennu-Njálssögu, Sjálfstætt fólk, Snorra-Eddu og ljóðabækur Gerðar Kristnýjar.

Lærðu grunninn í esperantó:

Góðan dag:  Bonan matenon

Halló:  Saluton

Hvað heitir þú?:  Kio estas via nomo?

Til hamingju:  Gratulon

Einn bjór, takk:  Unu bieron, mi petas

Hvað er þetta?:  Kio estas tio?

Þetta er hundur:  Tio estas hundo

Verði þér að góðu:  Ne dankinde

Ég elska þig:  Mi amas vin






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.