Lífið

Leigja svefnpoka og tjöld til útlendinga

Sara McMahon skrifar
Óskar Bjarni Skarphéðinsson og Vaidas Valentukevicius reka Gangleri Outfitters. Þar er hægt að kaupa eða leigja útivistarbúnað.
Óskar Bjarni Skarphéðinsson og Vaidas Valentukevicius reka Gangleri Outfitters. Þar er hægt að kaupa eða leigja útivistarbúnað. Fréttablaðið/Arnþór Birkisson
„Það var þannig að við höfum báðir, og þá sérstaklega Vaidas, fengið útlendinga í heimsókn sem ætluðu sér út á land en voru of illa útbúnir fyrir slíkar ferðir. Útivistarbúnaður er dýr í kaupum og þá kemur svona leiga sér vel,” segir Óskar Bjarni Skarphéðinsson sem rekur verslunina Gangleri Outfitters á Hverfisgötu ásamt Vaidas Valentukevicius.

Í versluninni er hægt að kaupa eða leigja útivistarbúnað á borð við gps-tæki, tjöld, bakpoka, pottasett og gönguskó svo fátt eitt sé nefnt.

Óskar Bjarni og Vaidas kynntust í gegnum sameiginlega vini fyrir þremur árum og varð vel til vina vegna sameiginlegs áhuga þeirra á útivist.

Gangleri Outfitters opnaði þann 17. júní og hannaði Vaidas allar innréttingar verslunarinnar. „Við gerðum allt sjálfir til að spara pening. Við söfnuðum til dæmis rekavið til að smíða innréttinguna og það kom svo vel út að það er eins og við höfum spanderað í innanhúsarkitekt,“ segir Óskar Bjarni og hlær.

Aðspurðir segja þeir félagar að flestir sem til þeirra koma séu vel undirbúnir fyrir ferðalög um Ísland en viðurkenna að það sé misjafn sauður í mörgu fé. „Það var einn sem ætlaði að ganga Laugaveginn með ferðatösku. Önnur fór í göngu skammt frá Mýrdalsjökli í háum hælum. En flestir mæta vel búnir og þurfa kannski bara að kaupa prímus.“

Óskar segir viðskiptin hafa farið ágætlega af stað þótt rigningarveðrið hafi vissulega haft nokkur áhrif þar á. „Það er töluvert meira að gera hjá okkur þegar veðurspáin er góð. Fólk er ekki mikið fyrir að plana útilegur þegar rigningu er spáð. Í vetur ætlum við svo að bæta við úrvalið hjá okkur. Þá ætti fólk að geta leigt ísaxir, hjálma og hlýrri svefnpoka.“

Gangleri Outfitters er opin alla daga vikunnar og skipta þeir Óskar og Vaidas vöktunum á milli sín. „Enn sem komið er eru allar líkur á því að annar okkar, eða við báðir, sé í vinnunni. Besta leiðin til að komast pottþétt ekkert út í íslenska náttúru er að opna útivistarverslun um hásumar,“ segir Óskar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.