Lífið

Safna fyrir alvöru sirkustjaldi

Hanna Ólafsdóttir skrifar
 Eyrún Ævarsdóttir er meðlimur í Sirkús Íslands sem safnar nú fyrir alvöru sirkústjaldi fyrir hópinn.
Eyrún Ævarsdóttir er meðlimur í Sirkús Íslands sem safnar nú fyrir alvöru sirkústjaldi fyrir hópinn. Mynd/Stefán
„Það má segja að það sé hálfgert sirkusæði á Íslandi og við vonum að það endist eitthvað áfram. Ef við ættum sirkustjald gætum við frekar haldið sýningar á landsbyggðinni og tryggt að til verði raunveruleg sirkusframtíð á íslandi,“ segir Eyrún Ævarsdóttir, meðlimur í Sirkus Íslands en hópurinn stendur nú fyrir söfnun fyrir alvöru sirkustjaldi. 

Sirkus Íslands verið starfandi í sjö ár og telur nú um 25 meðlimi. „Hingað til höfum við aðallega verið að sýna í leikhúsum en nú komum við fram á nýafstaðinni sirkuslistahátíð og fundum hvað þessi tjöld eru æðisleg.“

Það má segja að hópurinn hafi slegið í gegn á áðurnefndri sirkushátíð en hópurinn kom fram á átján sýningum á tíu dögum og var uppselt á allar. Eyrún segir velgengnina hafa komið hópnum skemmtilega á óvart.

„Þetta var mjög gaman en við erum auðvitað alvöru hópur. Ég er búin með eitt ár í sirkusskóla í Rotterdam og nú í haust eru tveir Íslendingar í viðbót að koma í skólann. Það eru nokkrir í hópnum sem að starfa eingöngu við að koma fram og metnaður okkar er mikill,“segir Eyrún sem hefur verið meðlimur í Sirkus Íslands í þrjú ár. Hún hefur sérhæft sig í loftfimleikunum aerial silks, eða silki eins og hún kýs að kalla það, og þrisvar sinnum komið fram með Sirkusnum.

Að sögn Eyrúnar er takmarkið að safna 40.000 evrum eða rúmlega sex milljónum króna. „Þetta er svolítið stór biti fyrir okkur, en margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Eyrún að lokum.

Hér er hægt er að styrkja sirkusinn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.