Lífið

Súpugerðardrottning í Framsóknarhúsinu

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Íris Hera Norðfjörð ætlar að reka tvo súpustaði í sama hverfinu.
Íris Hera Norðfjörð ætlar að reka tvo súpustaði í sama hverfinu. fréttablaðið/arnþór
Fólk Eigandi veitingastaðarins Kryddlegin hjörtu, sem er til húsa við Skúlagötu í Reykjavík, færir nú út kvíarnar og opnar annan eins stað í Framsóknarhúsinu á Hverfisgötu.

Íris Hera Norðfjörð, súpugerðadrottning, matarskáld og eigandi staðarins, vinnur nú hörðum höndum að því að innrétta nýja staðinn sjálf og hyggst opna staðinn í næstu viku.

„Ég lét ævilangan draum minn rætast þegar ég opnaði Kryddlegin hjörtu í kreppunni,“ útskýrir Íris og bætir við að hún hafi orðið fyrir hugljómun á þessum tíma. „Ég fór á námskeið hjá fyrirlesaranum Tony Robbins, en hann hjálpaði mér að sjá lífið í allt öðru ljósi,“ bætir Íris við. Hún hafði verið öryrki í fjögur ár er hún fór að reka súpustaðinn.

Upprunalegi staðurinn var opnaður árið 2008 en veitingastaðurinn sérhæfir sig í heilsusamlegum súpum sem notið hafa mikilla vinsælda.

Íris ákvað að flytja staðinn um set þegar eigendur hússins sem hýsir upprunalega staðinn ákváðu að hækka leiguna um 200 þúsund á einu ári. „Leigan á Skúlagötunni hefur hækkað um þriðjung eftir að nýir eigendur keyptu húsið og því fór ég að litast um eftir nýju húsnæði,“ segir Íris sem festi kaup á fyrstu hæð Framsóknarhússins í mars síðastliðnum.

Íris áttaði sig seint á því að hún var samningsbundin með himinháa leigu út sumarið 2014 og stendur því uppi með tvö húsnæði og einn stað. „Það var ekkert annað í stöðunni en að láta slag standa og reka tvo staði í sama hverfinu,“ segir Íris bjartsýn á framtíðina.

„Þótt þetta hafi verið erfið fæðing finn ég að þetta verður æðislegt. Ég er búin að sjá um þetta allt sjálf og veit að þetta á eftir að ganga vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.