Lífið

Bara grín með Birni Braga

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar
Björn Bragi Árnason mun stýra þættinum Bara grín sem hefjast á Stöð 2 í ágúst.
Björn Bragi Árnason mun stýra þættinum Bara grín sem hefjast á Stöð 2 í ágúst. Mynd / Arnþór
Fjallað verður um nokkra bestu gamanþætti Íslendinga og skyggnst á bak við tjöldin í þáttum sem hefjast á Stöð 2 í ágúst.

Þættirnir nefnast Bara grín og er um að ræða fimm þátta seríu, þar sem hver þáttur verður tileinkaður einni íslenskri gamanþáttaröð sem sýnd var á Stöð 2.

Þáttaraðirnar sem fjallað verður um eru Fóstbræður, Stelpurnar, Vaktirnar, 70 mínútur og Steindinn okkar. „Við reyndum að velja þætti sem eru ólíkir innbyrðis,“ útskýrir Björn Bragi Árnason sem mun stýra þáttunum.

Bara grín samanstendur af viðtölum við þá sem stóðu að þáttunum en einnig verða sýnd brot af því besta. „Viðtölin eru mjög skemmtileg og margt nýtt kemur fram, til dæmis ýmsar sögur sem ekki hafa áður verið sagðar opinberlega,“ segir Björn Bragi.

„Við ætlum að kafa ofan í þættina. Ekki bara sýna bestu atriðin heldur skoða dálítið hvernig þættirnir urðu til, því þeir eiga sér allir dálítið skemmtilega sögu.“

Fjallað verður um Vaktirnar.
Hann tekur dæmi um Fóstbræður, sem áttu erfitt uppdráttar í byrjun og þótti útséð um að þættirnir yrðu sýndir á sínum tíma.

„Bæði það og svo hvernig þessi hópur myndaðist. Það er áhugavert hvernig þessar ólíku persónur náðu að mynda svo sterka heild og gera einhverja albestu grínþáttaröð Íslandssögunnar.“

Áhorfendur geta því leyft sér að hlakka til þessara þátta sem varpa munu nýju ljósi á þættina sem hafa komið okkur til að hlæja í gegnum tíðina.

Margir telja Fóstbræður einn allra besta grínþátt sögunnar og víst er að grínið hefur lifað gegnum árin. Sumir lifa jafnvel ekki heilan dag án þess að vísa í atriði eða karakter úr þáttunum. Fóstbræður voru á dagskrá Stöðvar 2 á árunum 1997-2001.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.