Stóru tölurnar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 9. ágúst 2013 07:00 Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa barmað sér yfir því að erfitt verði að ná hallalausum fjárlögum á næsta ári. Í nýrri skýrslu um efnahagshorfur á Íslandi tekur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) undir það og bendir á ýmis hættumerki í ríkisrekstrinum á þessu ári. AGS segir hins vegar að það sé alls ekki útilokað að ná markmiðinu um hallalaus fjárlög og telur upp nokkrar leiðir til þess; að skera niður styrki til landbúnaðar, hrista upp í almannatryggingum þannig að þær hjálpi aðallega þeim sem þurfa mest á því að halda og hækka lægsta þrep virðisaukaskatts, en grípa á móti til aðgerða til að hjálpa tekjulágum hópum. Þetta þrennt gæti skilað um 34 milljarða bata í ríkisrekstrinum. Hvort ríkisstjórnin hefur pólitískt þor til að ráðast í aðgerðir sem þessar er önnur saga. Til næstu ára leggur AGS til að ríkisstjórnin finni varanlegri sparnaðarleiðir og nefnir þar sérstaklega mennta- og heilbrigðiskerfið. Þetta eru kostnaðarsömustu útgjaldaliðir ríkisins og í rauninni segir það sig sjálft að stóru upphæðunum í sparnaði verður ekki náð nema að hreyfa við þeim. Í sérstakri úttekt leitast sérfræðingar AGS við að leggja mat á hversu mikið mætti spara og byggja á gögnum sem sýna að þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé góð og útkoman úr menntakerfinu í meðallagi kostar rekstur beggja kerfa mun meira en í OECD-ríkjunum að meðaltali. AGS bendir þannig á að þótt dreifbýlið á Íslandi valdi einhverri óhagkvæmni virðist bæði heilbrigðis- og menntakerfið ofmannað í alþjóðlegum samanburði. Hægt sé að lækka kostnað við bæði menntun og heilbrigðisþjónustu gríðarlega og engu að síður halda óbreyttum gæðum þjónustu. Flestar eru tillögurnar kunnuglegar; til dæmis að draga úr áherzlu á spítalarekstur og efla þess í stað heimaþjónustu við sjúklinga, auka samkeppni til að lækka lyfjakostnað og stytta nám til stúdentsprófs, með tilheyrandi fækkun kennara og aukinni kennsluskyldu í grunnskólum. Sérfræðingar sjóðsins meta það svo að ef skilvirkni í opinberri þjónustu á Íslandi væri á við það sem bezt gerist mætti spara allt að 111 milljörðum króna á ári. AGS bendir á að þótt ekki næðist nema helmingurinn af þeim sparnaði gæti það skipt sköpum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist í Fréttablaðinu í dag telja útreikninga AGS fráleita. Auðvitað má deila um þá og sjálfsagt eru einhverjar aðstæður á Íslandi þannig að við náum ekki sömu skilvirkni og ríkin sem standa sig bezt. Úttekt AGS segir okkur samt nokkra mikilvæga hluti. Í fyrsta lagi að raunverulegum sparnaði í ríkisrekstrinum verður ekki náð með því að halda áfram að skera niður fjárveitingar til óbreyttra verkefna. Það þarf róttæka uppstokkun á því hvernig þjónustan er veitt. Í öðru lagi að við hljótum að þurfa að horfa í eigin barm, þegar okkur er sýnt fram á að bæði heilbrigðisþjónusta og menntun kosti skattgreiðendur mun meira en að meðaltali í OECD. Við erum að gera eitthvað vitlaust og þurfum þá að breyta því. Og í þriðja lagi er það ekki alltaf lausnin, ef við viljum betri opinbera þjónustu, að heimta meiri peninga og fleira fólk. Við þurfum að horfa á skipulag þjónustunnar og læra af öðrum. Mikið mun mæða á ráðherrum heilbrigðis- og menntamála á næstunni. Það er í rauninni á þeirra herðum að ná fram stóru tölunum í sparnaði ríkisins, en til þess þurfa þeir að þora að hrista upp í stöðnuðu kerfi og leggja til atlögu við rótgróna sérhagsmuni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa barmað sér yfir því að erfitt verði að ná hallalausum fjárlögum á næsta ári. Í nýrri skýrslu um efnahagshorfur á Íslandi tekur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) undir það og bendir á ýmis hættumerki í ríkisrekstrinum á þessu ári. AGS segir hins vegar að það sé alls ekki útilokað að ná markmiðinu um hallalaus fjárlög og telur upp nokkrar leiðir til þess; að skera niður styrki til landbúnaðar, hrista upp í almannatryggingum þannig að þær hjálpi aðallega þeim sem þurfa mest á því að halda og hækka lægsta þrep virðisaukaskatts, en grípa á móti til aðgerða til að hjálpa tekjulágum hópum. Þetta þrennt gæti skilað um 34 milljarða bata í ríkisrekstrinum. Hvort ríkisstjórnin hefur pólitískt þor til að ráðast í aðgerðir sem þessar er önnur saga. Til næstu ára leggur AGS til að ríkisstjórnin finni varanlegri sparnaðarleiðir og nefnir þar sérstaklega mennta- og heilbrigðiskerfið. Þetta eru kostnaðarsömustu útgjaldaliðir ríkisins og í rauninni segir það sig sjálft að stóru upphæðunum í sparnaði verður ekki náð nema að hreyfa við þeim. Í sérstakri úttekt leitast sérfræðingar AGS við að leggja mat á hversu mikið mætti spara og byggja á gögnum sem sýna að þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé góð og útkoman úr menntakerfinu í meðallagi kostar rekstur beggja kerfa mun meira en í OECD-ríkjunum að meðaltali. AGS bendir þannig á að þótt dreifbýlið á Íslandi valdi einhverri óhagkvæmni virðist bæði heilbrigðis- og menntakerfið ofmannað í alþjóðlegum samanburði. Hægt sé að lækka kostnað við bæði menntun og heilbrigðisþjónustu gríðarlega og engu að síður halda óbreyttum gæðum þjónustu. Flestar eru tillögurnar kunnuglegar; til dæmis að draga úr áherzlu á spítalarekstur og efla þess í stað heimaþjónustu við sjúklinga, auka samkeppni til að lækka lyfjakostnað og stytta nám til stúdentsprófs, með tilheyrandi fækkun kennara og aukinni kennsluskyldu í grunnskólum. Sérfræðingar sjóðsins meta það svo að ef skilvirkni í opinberri þjónustu á Íslandi væri á við það sem bezt gerist mætti spara allt að 111 milljörðum króna á ári. AGS bendir á að þótt ekki næðist nema helmingurinn af þeim sparnaði gæti það skipt sköpum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist í Fréttablaðinu í dag telja útreikninga AGS fráleita. Auðvitað má deila um þá og sjálfsagt eru einhverjar aðstæður á Íslandi þannig að við náum ekki sömu skilvirkni og ríkin sem standa sig bezt. Úttekt AGS segir okkur samt nokkra mikilvæga hluti. Í fyrsta lagi að raunverulegum sparnaði í ríkisrekstrinum verður ekki náð með því að halda áfram að skera niður fjárveitingar til óbreyttra verkefna. Það þarf róttæka uppstokkun á því hvernig þjónustan er veitt. Í öðru lagi að við hljótum að þurfa að horfa í eigin barm, þegar okkur er sýnt fram á að bæði heilbrigðisþjónusta og menntun kosti skattgreiðendur mun meira en að meðaltali í OECD. Við erum að gera eitthvað vitlaust og þurfum þá að breyta því. Og í þriðja lagi er það ekki alltaf lausnin, ef við viljum betri opinbera þjónustu, að heimta meiri peninga og fleira fólk. Við þurfum að horfa á skipulag þjónustunnar og læra af öðrum. Mikið mun mæða á ráðherrum heilbrigðis- og menntamála á næstunni. Það er í rauninni á þeirra herðum að ná fram stóru tölunum í sparnaði ríkisins, en til þess þurfa þeir að þora að hrista upp í stöðnuðu kerfi og leggja til atlögu við rótgróna sérhagsmuni.