Handbolti

Framarar æfa með KR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús Gunnar og félagar fögnuðu þeim stóra í vor.
Magnús Gunnar og félagar fögnuðu þeim stóra í vor. Fréttablaðið/Valli
Guðjón Drengsson, Haraldur Þorvarðarson og Magnús Erlendsson æfa þessa dagana með meistaraflokki KR. Liðið leikur í 1. deild á næstu leiktíð en meistaraflokkurinn var endurvakinn hjá Vesturbæingum á vormánuðum.

Guðjón var síðast á mála hjá Selfossi en lék ekkert á síðustu leiktíð vegna meiðsla. Haraldur og Magnús urðu hins vegar Íslandsmeistarar með Fram í vor.

„Maður er byrjaður að mæta á æfingar hjá KR,“ segir Magnús sem hafði stefnt á að hætta. Hann segir Harald hafa platað sig til að kíkja á æfingar en góðvinur Haraldar, Arnar Jón Agnarsson, þjálfar liðið. Þá hefur Haraldur sterk tengsl við KR úr æsku.

„Það er fjölskylduvænna að æfa tvisvar til þrisvar í viku og spila,“ segir Magnús sem einnig hefur litið inn á æfingar hjá Fram til að halda sér við.

„Ég ætlaði að hætta og er þannig séð hættur. Ég velti fyrir mér að spila í utandeildinni en svo eru lið sem eru tilbúin að leyfa manni að vera í þessu á eigin forsendum,“ sagði Magnús. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort þremenningarnir spili með KR í vetur.

Ellefu lið verða í 1. deildinni í vetur eða þremur fleiri en á síðustu leiktíð. Auk KR-inga senda Hamrarnir frá Akureyri lið til keppni og sömuleiðis ÍH úr Hafnarfirði. Fyrsta umferðin verður leikin föstudagskvöldið 20. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×