Bakþankar

Gísli, Eiríkur og Helgi

Halldór Halldórsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson ætlar að yfirgefa stjórnmál – í bili. Skoðanir hans rúmast ekki innan Sjálfstæðisflokksins. Mögulega er ekki einu sinni pláss fyrir þær innan borgarmálanna almennt. Skoðanir Gísla Marteins – í stóru málunum almennt eru settar fram af skynsemi og yfirvegun. Þetta eru yfirleitt mjög faglega hanteraðar skoðanir og stefnumál, byggðar á innsýn, menntun, reynslu, ást á Reykjavík og ást á borgarhugtakinu almennt. Að það skuli ekki vera pláss fyrir þessar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins er sorglegt – ef það er ekki pláss fyrir þær innan borgarstjórnarinnar er það óhugnanlegt.

Við höfum pláss fyrir allt pípið í Vigdísi Hauksdóttur og samsæriskenningar Framsóknarmanna almennt. Við höfum pláss fyrir innihaldslaust gelt og gaul og framapot – en ekki skoðanir og baráttumál sem teygja sig skör ofar en hin almenna tækifærismennska sem einkennt hefur íslensk stjórnmál frá því við fórum að kalla Ísland lýðræðisríki.

Fyrir mann eins og mig, sem er alinn upp af tveimur allaböllum í Mosfellsdalnum, þá var Gísli Marteinn síðasti móhíkani Sjálfstæðismanna. Hann er virkilega viðkunnanlegur náungi líka – kannski ágætt að hann dagi ekki upp í þessu flagi sem stjórnmál á Íslandi eru. Að sama skapi vil ég ekki að Jón Gnarr fari aftur fram. Sem ókjörinn og eigingjarn fulltrúi Grínverjahrepps verð ég að segja: við söknum þín maður, hættu að að borgarstjórast og komdu aftur að djóka.

Þegar Jón Gnarr fór í framboð fannst mér það virkilega flott skref. Eins og kaninn segir, „if you can‘t beat them – join them“. Hann var kominn með leiða á að gera grín að ástandinu og gagnrýna það og vildi heldur taka þátt, reyna að breyta. Ég held að Gísli hafi gengið í gegnum sömu krísu, fengið leiða á að taka þátt og heldur viljað gagnrýna og gera grín. Mér finnst virkilega flott skref hjá Gísla Marteini að ætla að stjórna pólitískum umræðuþætti á RÚV. Kaninn á annan frasa, „if you can‘t beat them – eat them“. Gísli, ég hlakka til að sjá þig grilla þessa helvítis gelti í beinni!






×