Lífið

Aðsóknarmestu tónleikar síðari ára á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Friðrik Ómar Hjörleifsson stendur á bak við heiðurstónleika Freddie Mercury.
Friðrik Ómar Hjörleifsson stendur á bak við heiðurstónleika Freddie Mercury. MYND/GASSI
„Þetta var fyrsta „show“ sinnar tegundar sem haldið var á Íslandi eftir að Harpa varð til,“ segir Friðrik Ómar Hjörleifsson, tónlistarmaður og stofnandi Rigg ehf., um heiðurstónleika Freddie Mercury. Yfir 40.000 manns hafa sótt tónleikana og enn eru þrennir Freddie Mercury heiðurstónleikar á döfinni.

„Þetta verða fimmtán tónleikar í heildina, ef við teljum þá tónleika með sem eftir eru og þá hafa um 42.000 manns komið á tónleikana,“ bætir Friðrik Ómar við.

Það er svo sannarlega ekki gefins að halda tónleika á Íslandi en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kostar rúmlega eina milljón króna að leigja Eldborgarsalinn í Hörpu, undir eina tónleika. Með tæknibúnaði og miðasölugjöldum getur upphæðin orðið tæpar þrjár milljónir króna.

Í Hofi á Akureyri kostar leiga á stærri salnum, Hamraborg, um 400 þúsund krónur, einnig getur bæst við kostnaður við leigu á búnaði og vinnu.

„Ég er í rauninni einn í þessu og mér finnst mjög gaman að standa í þessu. Það er einnig mjög ánægjulegt að hugmynd sem ég fæ geti veitt fjölda fólks vinnu en það koma um 30 til 40 manns koma að Freddie-sýningunni,“ bætir Friðrik Ómar við.

Friðrik Ómar stofnaði Rigg árið 2008 og hafa fjölmargir viðburðir verið skipulagðir af fyrirtækinu.

Næsta verkefni Rigg er Bee Gees-heiðurstónleikarnir sem haldnir verða í Háskólabíó hinn 12. október næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.