Handbolti

Framkonur spila tvo Evrópuleiki á heimavelli um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir hjá Fram spilar sinn fyrsta Evrópuleik í dag.
Ragnheiður Júlíusdóttir hjá Fram spilar sinn fyrsta Evrópuleik í dag. Mynd/Daníel
Þetta verður Evrópuhelgi hjá Íslandsmeisturum Fram í kvennahandboltanum því Safamýrarstelpurnar mæta enska liðinu Olympia HC-London í tveimur leikjum í EHF-bikarnum í Framhúsinu um helgina.

Fyrri leikurinn, sem er heimaleikur Olympia, fer fram klukkan 16.00 í dag, en liðin mætast svo aftur á sama tíma og sama stað daginn eftir og það er heimaleikur Fram. Þetta er sjötta árið í röð sem Framkonur taka þátt í Evrópukeppninni. Framliðið féll út í 2. umferð í keppninni í fyrra á móti norska liðinu Tertnes frá Bergen en lengst komst liðið veturinn 2009-10 þegar liðið fór alla leið í átta liða úrslit.

Olympia er svo sannarlega alþjóðlegt lið því á leikmannalista liðsins inni á heimasíðu evrópska handknattknattleikssambandsins eru skráðir leikmenn frá þrettán þjóðlöndum. Í rauninni er bara ein ensk stúlka í liðinu en það er hægri hornamaðurinn Annaleigh Knott.

Í leikmannahópnum eru einnig leikmenn frá Portúgal, Rúmeníu, Frakklandi, Tékklandi, Noregi, Ungverjalandi, Svíþjóð, Ástralíu, Lettlandi, Póllandi, Möltu og Serbíu. Allir leikmenn Fram eru íslenskir og margar þeirra að stíga fyrstu alvöru skrefin í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×