Mikilvægt spor í rétta átt Þorsteinn Pálsson skrifar 5. október 2013 06:00 Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er mikilvægt spor í rétta átt. Það felur að sönnu ekki í sér kerfisbreytingar. En mestu máli skiptir að horfið er frá þeim óábyrga slaka í ríkisfjármálum sem vinstristjórnin endaði á eftir ábyrga byrjun. Í efnahagslegu samhengi er mikilvægast að horfið skuli vera frá hallarekstri. Frá öðru pólitísku sjónarhorni hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra styrkt stöðu sína með hvoru tveggja frumvarpinu og röksemdafærslu sinni. Eftir situr sú ímynd að hann sé rödd raunsæis og ábyrgðar í ríkisstjórnarsamstarfinu. Hverjum manni er í lófa lagið að gagnrýna það sem gera hefði mátt betur. Á útgjaldahliðinni má nefna ónóg framlög til heilbrigðiskerfisins. Á tekjuhliðinni er unnt að benda á of litla lækkun á tryggingagjaldinu. Þannig mætti lengi telja. Þessu hefur fjármálaráðherra svarað með þeim gildu rökum að markmiðið um jöfnuð hafi verið sett ofar öðru. Áframhaldandi skuldasöfnun myndi í reynd þrengja svigrúmið á báðum sviðum. Eftirtektarvert er að fjárlagaumræðan nú hefur um margt verið ábyrgari á bæði borð en gengur og gerist. Þar kemur tvennt til. Annað er að þunginn í röksemdafærslu fjármálaráðherrans hefur knúið menn upp úr hefðbundnum hjólförum. Hitt er að ábyrgð stjórnarandstöðunnar er svo nýliðin að hún á erfitt með að kalla á aukin útgjöld án þess að segja hvernig á að fjármagna þau. Því fer vitaskuld fjarri að frumvarpið sé hafið yfir gagnrýni. Virðingarupprisa Alþingis felst ekki í því að ætlast til þess að stjórnarandstaðan láti sér allt vel líka. Hún felst í því að gera þá kröfu að sérhverri tillögu um aukin útgjöld fylgi fjáröflun, krónu fyrir krónu. Þó að menn greini á skiptir miklu að þessi vísir að auknum aga haldist.Eyðan Stjórnarandstaðan gat dregið í efa efnahagslegar forsendur frumvarpsins um hagvöxt, verðbólgu og kaupmátt og komið með tillögur um hvernig við því álitamáli skyldi bregðast. Hún lét það vera. Það hefði dregið athyglina að viðskilnaði vinstristjórnarinnar sem var ekki eins og hún vildi vera láta og þrengt svigrúm til gagnrýni. Aðilar vinnumarkaðarins hafa á hinn bóginn bent á þetta. Efnahagsforsendur Hagstofunnar frá því í júní koma til endurskoðunar á næstu vikum. Komi í ljós að efasemdirnar séu réttmætar verður ekki komist hjá kerfisbreytingum í þingmeðferðinni eigi að verja heilbrigðiskerfið og jöfnuðinn. Það kallar á tafarlausan undirbúning og opna umræðu ætli menn að vera viðbúnir. Pólitísku vonbrigðin eru þau að ábyrgt skref í ríkisfjármálum skuli ekki duga til að skapa forsendur fyrir hófsömum kjarasamningum til lengri tíma. Meginástæðan fyrir því er sú að stefnan í gjaldmiðils- og peningamálum gefur mönnum ekkert haldreipi. Þar er eyða, sem enginn getur byggt á, ekki aðilar vinnumarkaðarins, ekki fyrirtækin og ekki erlendir fjárfestar. Í raun birtast þau tíðindi með frumvarpinu að framtíðarsýnin á höftin er að breyta heiti þeirra í varúðarreglur og hraðahindranir. Með öðrum orðum: Það tókst ekki að vekja vonir um að halda megi krónunni og tryggja fullt viðskiptafrelsi, hvað þá að sýna fram á að það sé gerlegt. Af því má ráða að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafði lög að mæla þegar hann ályktaði um nauðsyn þess að skoða aðra kosti í gjaldmiðilsmálum. Það var ólán að Framsóknarflokknum skyldi takast að útiloka þann möguleika.Blinda augað Eins og oft vill verða með frumvörp til fjárlaga er blinda auganu snúið við snúnum viðfangsefnum. Sum þeirra eru erfðasyndir frá vinstristjórninni og jafnvel forverum hennar. Önnur eru ný af nálinni. Til erfðasyndanna heyra ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar. Þó að um þær sé fjallað í frumvarpinu veldur það sérstökum vonbrigðum að ekkert skuli tekið á yfirvofandi þurrð B-deildar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Hættan er sú að ríkissjóður muni á endanum seilast í vasa almennu lífeyrissjóðanna til að fjármagna þær skuldbindingar. Þá heyrir söfnunarkerfið sögunni til. Það mun valda grundvallarbreytingum á velferðarsamfélaginu. Þögnin um þá vá er óskiljanleg. Stóra auða mengið er svo loforð Framsóknarflokksins um heimsmet í endurgreiðslu húsnæðisskulda. Þó að ætlunin sé að afla sérstaklega fjár til þess fram hjá almennum sköttum og án niðurskurðar gefur það falska mynd af fjárreiðum ríkisins að sýna þær tilfærslur ekki í fjárlögum. Menn þurfa ekki annað en að horfa til Grikklands til að sjá hversu hættulegt það er að halda skuldbindingum fyrir utan ríkisbókhaldið. Þó að sumir heitustu Evrópusambandsandstæðingar telji þýskan aga helstu ógnina við fullveldið eins og sakir standa er gríska agaleysið eigi að síður víti til varnaðar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er mikilvægt spor í rétta átt. Það felur að sönnu ekki í sér kerfisbreytingar. En mestu máli skiptir að horfið er frá þeim óábyrga slaka í ríkisfjármálum sem vinstristjórnin endaði á eftir ábyrga byrjun. Í efnahagslegu samhengi er mikilvægast að horfið skuli vera frá hallarekstri. Frá öðru pólitísku sjónarhorni hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra styrkt stöðu sína með hvoru tveggja frumvarpinu og röksemdafærslu sinni. Eftir situr sú ímynd að hann sé rödd raunsæis og ábyrgðar í ríkisstjórnarsamstarfinu. Hverjum manni er í lófa lagið að gagnrýna það sem gera hefði mátt betur. Á útgjaldahliðinni má nefna ónóg framlög til heilbrigðiskerfisins. Á tekjuhliðinni er unnt að benda á of litla lækkun á tryggingagjaldinu. Þannig mætti lengi telja. Þessu hefur fjármálaráðherra svarað með þeim gildu rökum að markmiðið um jöfnuð hafi verið sett ofar öðru. Áframhaldandi skuldasöfnun myndi í reynd þrengja svigrúmið á báðum sviðum. Eftirtektarvert er að fjárlagaumræðan nú hefur um margt verið ábyrgari á bæði borð en gengur og gerist. Þar kemur tvennt til. Annað er að þunginn í röksemdafærslu fjármálaráðherrans hefur knúið menn upp úr hefðbundnum hjólförum. Hitt er að ábyrgð stjórnarandstöðunnar er svo nýliðin að hún á erfitt með að kalla á aukin útgjöld án þess að segja hvernig á að fjármagna þau. Því fer vitaskuld fjarri að frumvarpið sé hafið yfir gagnrýni. Virðingarupprisa Alþingis felst ekki í því að ætlast til þess að stjórnarandstaðan láti sér allt vel líka. Hún felst í því að gera þá kröfu að sérhverri tillögu um aukin útgjöld fylgi fjáröflun, krónu fyrir krónu. Þó að menn greini á skiptir miklu að þessi vísir að auknum aga haldist.Eyðan Stjórnarandstaðan gat dregið í efa efnahagslegar forsendur frumvarpsins um hagvöxt, verðbólgu og kaupmátt og komið með tillögur um hvernig við því álitamáli skyldi bregðast. Hún lét það vera. Það hefði dregið athyglina að viðskilnaði vinstristjórnarinnar sem var ekki eins og hún vildi vera láta og þrengt svigrúm til gagnrýni. Aðilar vinnumarkaðarins hafa á hinn bóginn bent á þetta. Efnahagsforsendur Hagstofunnar frá því í júní koma til endurskoðunar á næstu vikum. Komi í ljós að efasemdirnar séu réttmætar verður ekki komist hjá kerfisbreytingum í þingmeðferðinni eigi að verja heilbrigðiskerfið og jöfnuðinn. Það kallar á tafarlausan undirbúning og opna umræðu ætli menn að vera viðbúnir. Pólitísku vonbrigðin eru þau að ábyrgt skref í ríkisfjármálum skuli ekki duga til að skapa forsendur fyrir hófsömum kjarasamningum til lengri tíma. Meginástæðan fyrir því er sú að stefnan í gjaldmiðils- og peningamálum gefur mönnum ekkert haldreipi. Þar er eyða, sem enginn getur byggt á, ekki aðilar vinnumarkaðarins, ekki fyrirtækin og ekki erlendir fjárfestar. Í raun birtast þau tíðindi með frumvarpinu að framtíðarsýnin á höftin er að breyta heiti þeirra í varúðarreglur og hraðahindranir. Með öðrum orðum: Það tókst ekki að vekja vonir um að halda megi krónunni og tryggja fullt viðskiptafrelsi, hvað þá að sýna fram á að það sé gerlegt. Af því má ráða að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafði lög að mæla þegar hann ályktaði um nauðsyn þess að skoða aðra kosti í gjaldmiðilsmálum. Það var ólán að Framsóknarflokknum skyldi takast að útiloka þann möguleika.Blinda augað Eins og oft vill verða með frumvörp til fjárlaga er blinda auganu snúið við snúnum viðfangsefnum. Sum þeirra eru erfðasyndir frá vinstristjórninni og jafnvel forverum hennar. Önnur eru ný af nálinni. Til erfðasyndanna heyra ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar. Þó að um þær sé fjallað í frumvarpinu veldur það sérstökum vonbrigðum að ekkert skuli tekið á yfirvofandi þurrð B-deildar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Hættan er sú að ríkissjóður muni á endanum seilast í vasa almennu lífeyrissjóðanna til að fjármagna þær skuldbindingar. Þá heyrir söfnunarkerfið sögunni til. Það mun valda grundvallarbreytingum á velferðarsamfélaginu. Þögnin um þá vá er óskiljanleg. Stóra auða mengið er svo loforð Framsóknarflokksins um heimsmet í endurgreiðslu húsnæðisskulda. Þó að ætlunin sé að afla sérstaklega fjár til þess fram hjá almennum sköttum og án niðurskurðar gefur það falska mynd af fjárreiðum ríkisins að sýna þær tilfærslur ekki í fjárlögum. Menn þurfa ekki annað en að horfa til Grikklands til að sjá hversu hættulegt það er að halda skuldbindingum fyrir utan ríkisbókhaldið. Þó að sumir heitustu Evrópusambandsandstæðingar telji þýskan aga helstu ógnina við fullveldið eins og sakir standa er gríska agaleysið eigi að síður víti til varnaðar.