Bíó og sjónvarp

Tók að sér hlutverk hjá Blomkamp

Leikkonan Sigourney Weaver fer með hlutverk í nýrri kvikmynd leikstjórans Neills Blomkamp.
Leikkonan Sigourney Weaver fer með hlutverk í nýrri kvikmynd leikstjórans Neills Blomkamp. Nordicphotos/getty
Leikkonan Sigourney Weaver hefur tekið að sér hlutverk í nýrri kvikmynd suðurafríska leikstjórans Neills Blomkamp, Chappie. Hugh Jackman, Dev Patel, Ninja, Yolandi Visser úr hljómsveitinni Die Antwoord, Jose Pablo Cantillo og Brandon Auret fara með helstu hlutverk myndarinnar.

Myndin segir frá vélmenni sem rænt er af tveimur glæpamönnum og elst upp hjá stórfurðulegri fjölskyldu, en vélmennið, sem er piltur, er gætt einhvers konar náðargáfu. Sharlto Copley, náinn samstarfsmaður Blomkamp, mun ljá vélmenninu rödd sína.

Blomkamp skrifaði handrit myndarinnar ásamt Terri Tatchell og fara tökur fram í Jóhannesarborg. Blomkamp á að baki kvikmyndir á borð við District 9 og Elysium.

Ekki er vitað hvaða hlutverk Weaver mun fara með í Chappie, en leikkonan er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að leika í myndum sem eiga sér stað í framtíðinni. Þekktust er Weaver fyrir hlutverk Ripley í Alien-kvikmyndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.