Afdrifarík loforð Mikael Torfason skrifar 4. nóvember 2013 07:00 Það var algerlega fyrirsjáanlegt að fylgið myndi hrynja af Framsóknarflokknum eftir kosningar. Flokkurinn fengi, samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins, ellefu þingmenn yrði gengið til kosninga í dag. Á þingi eru hins vegar nítján Framsóknarmenn og hættan er sú að krafan um að flokkurinn efni kosningaloforð, sem voru óraunhæf og út í loftið, neyði þessa þingmenn til að grípa til örþrifaráða. Framsóknarflokkurinn fékk nærri fjórðung atkvæða í vor en hafði í könnunum Fréttablaðsins og Stöðvar 2 hæst mælst með í kringum fjörutíu prósenta fylgi. Gott gengi í kosningunum má rekja til stærsta kosningaloforðs Íslandssögunnar; niðurfellingu skulda húsnæðiseigenda sem fjármagna á með fé í eigu erlendra kröfuhafa, svokallaðra hrægammasjóða, eins og formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, myndi orða það. Áætlaður kostnaður við skuldaleiðréttinguna er um 240 milljarðar samkvæmt formanninum en til að setja þá tölu í samhengi gera áætlanir ráð fyrir að nýr Landspítali kosti 85 milljarða á núvirði. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði grein í Fréttablaðið á laugardag þar sem hann líkir Framsóknarflokknum við aðra þjóðernispopúlismaflokka í Evrópu. Grein Þorsteins má meðal annars lesa sem brýningu til Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins um að standa í lappirnar gagnvart vafasömum loforðum Framsóknar. Þorsteinn segir að helsti munurinn á Framsókn og öðrum þjóðernispopúlismaflokkum í Evrópu sé að flokkurinn sé „fyrsti og eini flokkur sinnar tegundar á evrópska efnahagssvæðinu til þess að veita ríkisstjórn og landi forystu“. Skilgreining Þorsteins á þjóðernispopúlismaflokki er einföld. Slíkir flokkar eru þjóðernissinnaðir, vilja ekki Evrópusamvinnu, hafa neikvæða afstöðu til innflytjenda og yfirbjóða þegar kemur að velferðar- og félagsmálum. Það væri ósanngjarnt að væna Framsóknarmenn um útlendingahatur en popúlísk loforð þeirra eru þeim mun stærri. Framsókn lofaði í síðustu kosningum „mestu endurgreiðslu húsnæðislána í heimi,“ svo vitnað sé í Þorstein. Það skulda ekki allir Íslendingar húsnæðislán. Af þeim 94 þúsund fjölskyldum sem eiga eigið húsnæði á Íslandi skulda 26 þúsund þeirra ekkert. Fjölskyldur sem leigja skulda heldur ekki húsnæðislán. Lán þeirra sem skulda eru auðvitað misjöfn og ekki öll stökkbreytt og því erfitt að segja til um það í dag hvaða fjölskyldur eiga von á „mestu endurgreiðslu húsnæðislána í heimi“. Tvær nefndir vinna að tillögum um lausn á skuldavanda heimilanna og niðurstöður þeirra verða kynntar í þessum mánuði og þeim næsta. Bjarni Benediktsson fjármálaráherra hefur sagt að hann eigi ekki von á að skuldarar fái digra jólagjöf frá ríkisstjórninni í ár. Könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 bendir til þess að tvær grímur séu að renna á kjósendur Framsóknarflokksins. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar ekkert og flokkurinn er enn stærsti flokkur landsins. Gleymum því ekki að þrátt fyrir kosningasigur Framsóknarmanna þá kusu þrír fjórðu kjósenda ekki þennan loforðapakka.Við töpuðum öll á hruninu. Ef eitthvað fé kemur í ríkiskassann, hvort heldur sem er frá erlendum kröfuhöfum eða sameiginlegum auðlindum, þá á það fé að fara í annaðhvort opinberar framkvæmdir, eins og til dæmis nýjan Landspítala, eða til niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mikael Torfason Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun
Það var algerlega fyrirsjáanlegt að fylgið myndi hrynja af Framsóknarflokknum eftir kosningar. Flokkurinn fengi, samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins, ellefu þingmenn yrði gengið til kosninga í dag. Á þingi eru hins vegar nítján Framsóknarmenn og hættan er sú að krafan um að flokkurinn efni kosningaloforð, sem voru óraunhæf og út í loftið, neyði þessa þingmenn til að grípa til örþrifaráða. Framsóknarflokkurinn fékk nærri fjórðung atkvæða í vor en hafði í könnunum Fréttablaðsins og Stöðvar 2 hæst mælst með í kringum fjörutíu prósenta fylgi. Gott gengi í kosningunum má rekja til stærsta kosningaloforðs Íslandssögunnar; niðurfellingu skulda húsnæðiseigenda sem fjármagna á með fé í eigu erlendra kröfuhafa, svokallaðra hrægammasjóða, eins og formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, myndi orða það. Áætlaður kostnaður við skuldaleiðréttinguna er um 240 milljarðar samkvæmt formanninum en til að setja þá tölu í samhengi gera áætlanir ráð fyrir að nýr Landspítali kosti 85 milljarða á núvirði. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði grein í Fréttablaðið á laugardag þar sem hann líkir Framsóknarflokknum við aðra þjóðernispopúlismaflokka í Evrópu. Grein Þorsteins má meðal annars lesa sem brýningu til Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins um að standa í lappirnar gagnvart vafasömum loforðum Framsóknar. Þorsteinn segir að helsti munurinn á Framsókn og öðrum þjóðernispopúlismaflokkum í Evrópu sé að flokkurinn sé „fyrsti og eini flokkur sinnar tegundar á evrópska efnahagssvæðinu til þess að veita ríkisstjórn og landi forystu“. Skilgreining Þorsteins á þjóðernispopúlismaflokki er einföld. Slíkir flokkar eru þjóðernissinnaðir, vilja ekki Evrópusamvinnu, hafa neikvæða afstöðu til innflytjenda og yfirbjóða þegar kemur að velferðar- og félagsmálum. Það væri ósanngjarnt að væna Framsóknarmenn um útlendingahatur en popúlísk loforð þeirra eru þeim mun stærri. Framsókn lofaði í síðustu kosningum „mestu endurgreiðslu húsnæðislána í heimi,“ svo vitnað sé í Þorstein. Það skulda ekki allir Íslendingar húsnæðislán. Af þeim 94 þúsund fjölskyldum sem eiga eigið húsnæði á Íslandi skulda 26 þúsund þeirra ekkert. Fjölskyldur sem leigja skulda heldur ekki húsnæðislán. Lán þeirra sem skulda eru auðvitað misjöfn og ekki öll stökkbreytt og því erfitt að segja til um það í dag hvaða fjölskyldur eiga von á „mestu endurgreiðslu húsnæðislána í heimi“. Tvær nefndir vinna að tillögum um lausn á skuldavanda heimilanna og niðurstöður þeirra verða kynntar í þessum mánuði og þeim næsta. Bjarni Benediktsson fjármálaráherra hefur sagt að hann eigi ekki von á að skuldarar fái digra jólagjöf frá ríkisstjórninni í ár. Könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 bendir til þess að tvær grímur séu að renna á kjósendur Framsóknarflokksins. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar ekkert og flokkurinn er enn stærsti flokkur landsins. Gleymum því ekki að þrátt fyrir kosningasigur Framsóknarmanna þá kusu þrír fjórðu kjósenda ekki þennan loforðapakka.Við töpuðum öll á hruninu. Ef eitthvað fé kemur í ríkiskassann, hvort heldur sem er frá erlendum kröfuhöfum eða sameiginlegum auðlindum, þá á það fé að fara í annaðhvort opinberar framkvæmdir, eins og til dæmis nýjan Landspítala, eða til niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.