Fastir pennar

Stórt áhyggjuefni

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Hnútukast Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í forsvarsmenn Seðlabankans vegna varnaðarorða þeirra um skuldalækkunaráform ríkisstjórnarinnar er furðulegt. Reyndar ekkert furðulegra en þau áform öll og ekki minna áhyggjuefni.

Í stjórnarsáttmálanum segir að nýta eigi svigrúm, sem „að öllum líkindum“ verði til samhliða uppgjöri þrotabúa bankanna til skuldaleiðréttingar. Því er haldið opnu að stofna sérstakan skuldaleiðréttingarsjóð.

Forsætisráðherrann er búinn að lofa að á næstu tíu dögum liggi fyrir hvernig málið verði útfært. Í ljósi þess að langt er í að uppgjöri þrotabúanna ljúki, hefur verið spurt hvort láta ætti Seðlabankann fjármagna leiðréttingarsjóðinn í millitíðinni.

Spurt var að þessu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með seðlabankamönnum í fyrradag. Már Guðmundsson seðlabankastjóri svaraði því til að ef til stæði að fjármagna aðgerðirnar á efnahagsreikningi Seðlabankans væri það ígildi seðlaprentunar.

„Það þarf ekki að stafa ofan í ykkur hvaða afleiðingar það hefur,“ sagði Már. Og þess þarf ekki; flestir vita að slíkt myndi leiða af sér verðbólgu.

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, benti á að ef menn breyttu lögum til að fjármagna slíkar aðgerðir í gegnum efnahagsreikning bankans væri það „öruggasta leiðin til að senda lánshæfismat ríkisins beinustu leið í ruslflokk“.

Sama dag sagðist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vilja forðast allar ráðstafanir sem lækkuðu lánshæfismat Íslands. Hann vildi heldur ekki skuldsetja ríkissjóð til að fjármagna skuldaleiðréttingu; þvert á móti ætti að lækka skuldir ríkisins.

Forsætisráðherranum finnst hann líklega í æ þrengri stöðu þegar hann leitar leiða til að uppfylla kosningaloforðið um róttækustu skuldaleiðréttingu í heimi. Alltént brást hann reiður við og skammaði seðlabankamennina; sagði nálgun þeirra „sérkennilega“ og eiga meira skylt við pólitík en hagstjórn. „En við látum ekki Seðlabankann stöðva okkur,“ sagði ráðherrann.

Samkvæmt lögum er aðalmarkmið Seðlabankans að berjast gegn verðbólgu. Hann á líka að passa upp á fjármálastöðugleika. Forsvarsmenn hans vara við aðgerðum sem gætu stefnt þessu í hættu. Það er þeirra hlutverk og ummælin ríma við áhyggjur ótalmargra hagfræðinga af stóra skuldaleiðréttingarloforðinu.

Einn þeirra er Jón Sigurðsson, áður formaður Framsóknarflokksins og seðlabankastjóri. Hann skrifar pistil í Pressuna og rekur 23 spurningar sem svara þurfi um skuldaleiðréttinguna, til dæmis um áhrifin á verðlag og hvernig eigi að bæta Seðlabankanum það, verði hann látinn standa undir leiðréttingarsjóði.

Um hugmyndir um að borga brúsann með peningum frá kröfuhöfum segir Jón: „Afsláttur af kröfum erlendra kröfuhafa eða sérstök gengisfelling í greiðslum til þeirra losar ekki fjármagn til ráðstöfunar. Ekki er því að sjá að neitt fé komi úr þessari átt.“

Forsætisráðherrann hefði getað svarað varnaðarorðum Seðlabankamanna með því að lýsa yfir að engin áform væru um að fara leiðir sem ógnuðu verðlags- eða fjármálastöðugleika í landinu eða spilltu lánshæfismati ríkissjóðs.

Þá hefðu margir orðið rólegri. En fyrst hann brást við hart og sakaði menn, sem sinna því hlutverki sem þeim ber samkvæmt lögum, um annarleg sjónarmið og pólitík, er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur.






×