Fastir pennar

Hlustum á viðvörunarbjöllur

'Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Það er rétt hjá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra að niðurstaðan í alþjóðlegu PISA-könnuninni er áfall fyrir þjóðina alla. Tíundu bekkingar á Íslandi standa mun verr en fyrir áratug, ástandið hefur versnað miklu meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og drengir standa til muna verr en stúlkur.

„Við getum ekki með nokkru móti komist undan því að horfa með mjög krítískum hætti á skólakerfið okkar,“ sagði menntamálaráðherrann í Fréttablaðinu á miðvikudaginn. „Fyrsta sem við verðum að gera er að horfast í augu við þessa staðreynd og viðurkenna vandann.“

Það er rétt hjá ráðherranum að skólakerfið þarf að grandskoða. Þar er margt frábærlega vel gert og þarf raunar ekki að efast um að miklar framfarir hafa orðið síðasta áratuginn. Samt er eitthvað að, fyrst Ísland kemur ekki betur en þetta út úr alþjóðlegum samanburði á kunnáttu í grunnþáttum. Það verður að nota tækifærið til endurmats og skoðunar, þótt það sé ekki æskilegt að fara í neinar kollsteypur í framhaldinu. Í þessari vinnu þarf að beina sérstakri athygli að strákum í skóla, því að stelpurnar koma í rauninni ágætlega út í alþjóðlegum samanburði.

Kennarasamband Íslands sendi frá sér tilkynningu í kjölfar birtingar PISA-niðurstaðnanna og kenndi sparnaði og aðhaldi um lakan árangur. Það er rétt að margir skólar eru í fjársvelti miðað við núverandi starfsemi þeirra. En samt erum við eitt þeirra OECD-ríkja sem verja hvað mestu fé til grunnskólans.

Á undanförnum tveimur áratugum hefur skólaskyldan lengzt um ár og skólaárið líka lengzt. Þetta samsvarar því að börn séu tveimur árum lengur í grunnskólanum en þau voru – og samt kunna þau minna við lok hans í grunnþáttunum sem skipta svo miklu máli upp á framhaldið í námi og starfi. Það segir okkur að það eru tækifæri til hagræðingar; það er hægt að nýta tímann í grunnskólanum betur, stytta skólann á ný sem lið í viðleitni til að skila fólki fyrr í stúdentspróf og nota sparnaðinn til dæmis til að borga kennurum betri laun.

Ýmislegt fleira hlýtur að þurfa að skoða. Margir kennarar kvarta til dæmis undan því að stefnan um skóla án aðgreiningar setji þá í vonlausa stöðu, með marga einstaklinga sem krefjast mikillar athygli inni í bekk án þeirrar aðstoðar sem þarf. Þá verða þurftaminni nemendur útundan. Um leið kvarta foreldrar barna með þroskafrávik margir hverjir yfir því að sérskólar standi þeim ekki lengur til boða. Er þessi stefna endilega sú eina rétta?

Og um leið og nauðsynlegt er að grandskoða skólakerfið geta foreldrar ekki vikizt undan því að líta í eigin barm. Börn þurfa hvatningu og aðstoð heima fyrir – og ekki síður að þeim sé innrættur agi og virðing fyrir skólanum sínum og náminu. Það er engin leið að gera þá kröfu til kennara að þeir byrji á að ala upp börnin áður en hægt er að fara að kenna þeim.

Skólakerfið okkar er lykillinn að framtíð þjóðarinnar; að Ísland standi sig í alþjóðlegri samkeppni þar sem mannauðurinn skiptir æ meira máli. Við höfum alla burði til að reka skólakerfi í fremstu röð. Þá verðum við líka að taka mark á viðvörunarbjöllum eins og þeirri sem hringdi þegar PISA-niðurstöðurnar birtust.






×