Viðskipti innlent

Fimmföld velta á hlutabréfamarkaði.

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kauphöll Íslands. Meðalvelta á hlutabréfamarkaði í dag er fimmföld miðað við það sem hún var allt árið í fyrra.
Kauphöll Íslands. Meðalvelta á hlutabréfamarkaði í dag er fimmföld miðað við það sem hún var allt árið í fyrra. Mynd/ GVA.
Velta á hlutabréfamarkaði núna í ársbyrjun er fimmföld miðað við meðalveltu á dag allt árið í fyrra. Þá hefur töluverð hækkun orðið á úrvalsvísitölunni. Greining Íslandsbanka gerir hlutabréfahækkunina að umfjöllunarefni í Morgunkorni sínu.

Þar segir að Úrvalsvísitalan OMXI6 hefur hækkað um 7,3% það sem af er árinu en til samanburðar hækkaði hún um rúmlega 16% allt árið í fyrra. Þá hefur veltan numið að meðaltali rétt rúmlega 1,5 milljörðum króna á dag en allt árið í fyrra var veltan að meðaltali um 352 milljónir króna á degi hverjum. Frá því að viðskipti hófust á þessu ári hefur veltan á hlutbréfamarkaði verið samtals um 12,5 milljarðar króna. en allt árið í fyrra var veltan 88 ma.kr. samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni sem Greining Íslandsbanka vísar í

Icelandair hefur hækkað mest það sem af er árinu eða um tæplega 14%. Félagið tilkynnti í síðustu viku um kaup á tveimur notuðum Boeing 757-200 farþegaflugvélum og munu þær bætast í flota félagsins í vor. Icelandair mun þannig vera með 18 vélar í rekstri sumarið 2013 samanborið við 16 vélar sumarið 2012. Þá komu upplýsingar um fjölda farþega og sætanýtingu hjá félaginu núna í upphafi árs fyrir í desember síðastliðinn sem sýndu áframhaldandi mikinn vöxt ferðamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×