Körfubolti

Keflavík, Snæfell og Grindavík í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Orri Valsson spilaði vel í kvöld.
Valur Orri Valsson spilaði vel í kvöld. Mynd/Vilhelm
Keflavík, Snæfell og Grindavík tryggðu sér sæti í undanúrslitum Lengjubikars karla í körfubolta í kvöld. Keflavík mætir Snæfell en Grindavík mætir annaðhvort KR eða KFÍ en sá leikur er enn í gangi.

Þorleifur Ólafsson tryggði Grindavík 84-83 sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í Njarðvík þegar hann skoraði sigurkörfuna fjórum sekúndum fyrir leikslok. Njarðvík var lengstum með forystuna í leiknum en Grindavík vann fjórða leikhlutann 23-14 og tryggði sér sæti í undanúrslitunum. Grindavík er því búið að vinna bæði Keflavík og Njarðvík síðan félagið sendi Kanann sinn heim.

Jóhann Árni Ólafsson skoraði 19 stig fyrir Grindavík og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 15 stig og 12 fráköst. Logi Gunnarsson skoraði 26 stig fyrir Njarðvík og Nigel Moore var með 15 stig og 14 fráköst.

Darrel Lewis skoraði 23 stig, Michael Craion var með 21 stig og 10 fráköst og Valur Orri Valsson var með 18 stig og 8 stoðsendingar þegar Keflavík vann 98-77 sigur á Þór úr Þorlákshöfn. Mike Cook Jr. skoraði 32 stig fyrir Þór og Nemanja Sovic var með 16 stig.

Snæfellingar komu til baka í Garðabænum og tryggðu sér 76-70 sigur á Stjörnunni með að vinna fjórða leikhlutann 28-16. Sigurður Þorvaldsson skoraði 18 stig og gaf 7 stoðsendingar fyrir Snæfell og Finnur Atli Magnússon var með 16 stig. Marvin Valdimarsson skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna og Justin Shouse var með 16 stig og 12 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×