Fæðingarsaga Ólafur Þ. Stephensen skrifar 24. desember 2013 06:00 Í kvöld hlustum við enn og aftur á söguna af umtöluðustu fæðingu allra tíma. Hún fór ekki fram við kjöraðstæður; fæðingarstaðurinn var fjárhús og enginn heilbrigðisstarfsmaður var viðstaddur. Það er hætt við að fáir íslenzkir foreldrar létu bjóða sér „hreiður“ af því tagi, enda þótt Biblíumyndirnar gefi til kynna að það hafi verið afskaplega kósý í fjárhúsinu og gestkvæmt í sængurlegu Maríu. Þegar við höfum hlustað á jólaguðspjallið, flest í uppljómaðri sóknarkirkjunni eða vel kyntri stofunni okkar, snúum við okkur að kræsingunum og tökum svo upp jólapakkana. Börnin eru í sínu bezta pússi, hrein og vel haldin og langflest heilbrigð og hraust. Ungbarnadauði er einn af mælikvörðunum á það hversu langt samfélag er komið á þróunarbrautinni. Í síðasta mánuði voru birtar tölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, sem sýndu að Ísland er það aðildarríki þar sem tíðni ungbarnadauða er langlægst; um 1,6 af hverjum þúsund börnum deyja áður en þau ná eins árs aldri. Þessa lágu tölu má þakka frábæru heilbrigðiskerfi. Við erum forréttindaþjóð að þessu leyti eins og á flestum öðrum sviðum. Það eru ekki allir svona heppnir. Í Úganda deyja 79 af hverjum þúsund börnum á fyrsta aldursári sínu, í Mósambík 88 og í Malaví 95. Þetta er með allra hæstu tölum um ungbarnadauða í heiminum, enda hafa margir foreldrar í þessum ríkjum engan aðgang að heilbrigðisþjónustu frekar en María og Jósef. Margir hafa þeir heldur ekki aðgang að hreinu vatni, sem stóreykur líkurnar á að börnin fái banvæna sjúkdóma. Það er ekki tilviljun að þessi þrjú ríki eru nefnd hér; þetta eru Afríkuríkin sem Íslendingar hafa kosið að hjálpa til sjálfshjálpar. Á aðventunni svikum við – eða öllu heldur stjórnmálamennirnir okkar – enn og aftur fyrirheitin um þá fjármuni sem við höfðum lofað þeim. Rökin fyrir því að taka af fjárveitingunum sem áttu að fara til Mósambík, Malaví og Úganda voru að það þyrfti að finna peninga í fjársvelt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Meðal þeirra verkefna sem fá þá minni peninga eru að grafa brunna þannig að fólk hafi aðgang að hreinu vatni og að byggja spítala og heilsugæzlustöðvar til að bæta mæðravernd og fæðingarþjónustu. Þetta eru verkefni sem skipta máli; enginn getur haldið því fram að árangur sjáist ekki af þessu starfi. Tölurnar um ungbarnadauða í þróunarsamvinnuríkjum Íslands tala sínu máli. Þótt þær séu enn svimandi háar á okkar mælikvarða hafa þær lækkað um helming frá því um miðja síðustu öld. Þar hefur Ísland getað lagt sín litlu lóð á vogarskálarnar – og á að halda því áfram. Árangur Íslands í baráttu við ungbarnadauðann getur verið þessum ríkjum fyrirmynd, því að það er ekkert óskaplega langt síðan við vorum í svipuðum málum sjálf. Fæðingarsögur íslenzkra fjölskyldna eru flestar af vel heppnuðum fæðingum þar sem allt gekk vel. Við megum gjarnan hugsa út í það, þegar við horfum framan í fjársjóðinn okkar í kvöld, hvað við eigum ótrúlega gott að þessu og flestu öðru leyti. Kannski verður það okkur hvatning til að leggja eitthvað af mörkum til þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem vinna með fátæku fólki í þróunarlöndunum, í sönnum anda þess sem fæddist í Betlehem, Jesú Krists. Gleðileg jól! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Í kvöld hlustum við enn og aftur á söguna af umtöluðustu fæðingu allra tíma. Hún fór ekki fram við kjöraðstæður; fæðingarstaðurinn var fjárhús og enginn heilbrigðisstarfsmaður var viðstaddur. Það er hætt við að fáir íslenzkir foreldrar létu bjóða sér „hreiður“ af því tagi, enda þótt Biblíumyndirnar gefi til kynna að það hafi verið afskaplega kósý í fjárhúsinu og gestkvæmt í sængurlegu Maríu. Þegar við höfum hlustað á jólaguðspjallið, flest í uppljómaðri sóknarkirkjunni eða vel kyntri stofunni okkar, snúum við okkur að kræsingunum og tökum svo upp jólapakkana. Börnin eru í sínu bezta pússi, hrein og vel haldin og langflest heilbrigð og hraust. Ungbarnadauði er einn af mælikvörðunum á það hversu langt samfélag er komið á þróunarbrautinni. Í síðasta mánuði voru birtar tölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, sem sýndu að Ísland er það aðildarríki þar sem tíðni ungbarnadauða er langlægst; um 1,6 af hverjum þúsund börnum deyja áður en þau ná eins árs aldri. Þessa lágu tölu má þakka frábæru heilbrigðiskerfi. Við erum forréttindaþjóð að þessu leyti eins og á flestum öðrum sviðum. Það eru ekki allir svona heppnir. Í Úganda deyja 79 af hverjum þúsund börnum á fyrsta aldursári sínu, í Mósambík 88 og í Malaví 95. Þetta er með allra hæstu tölum um ungbarnadauða í heiminum, enda hafa margir foreldrar í þessum ríkjum engan aðgang að heilbrigðisþjónustu frekar en María og Jósef. Margir hafa þeir heldur ekki aðgang að hreinu vatni, sem stóreykur líkurnar á að börnin fái banvæna sjúkdóma. Það er ekki tilviljun að þessi þrjú ríki eru nefnd hér; þetta eru Afríkuríkin sem Íslendingar hafa kosið að hjálpa til sjálfshjálpar. Á aðventunni svikum við – eða öllu heldur stjórnmálamennirnir okkar – enn og aftur fyrirheitin um þá fjármuni sem við höfðum lofað þeim. Rökin fyrir því að taka af fjárveitingunum sem áttu að fara til Mósambík, Malaví og Úganda voru að það þyrfti að finna peninga í fjársvelt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Meðal þeirra verkefna sem fá þá minni peninga eru að grafa brunna þannig að fólk hafi aðgang að hreinu vatni og að byggja spítala og heilsugæzlustöðvar til að bæta mæðravernd og fæðingarþjónustu. Þetta eru verkefni sem skipta máli; enginn getur haldið því fram að árangur sjáist ekki af þessu starfi. Tölurnar um ungbarnadauða í þróunarsamvinnuríkjum Íslands tala sínu máli. Þótt þær séu enn svimandi háar á okkar mælikvarða hafa þær lækkað um helming frá því um miðja síðustu öld. Þar hefur Ísland getað lagt sín litlu lóð á vogarskálarnar – og á að halda því áfram. Árangur Íslands í baráttu við ungbarnadauðann getur verið þessum ríkjum fyrirmynd, því að það er ekkert óskaplega langt síðan við vorum í svipuðum málum sjálf. Fæðingarsögur íslenzkra fjölskyldna eru flestar af vel heppnuðum fæðingum þar sem allt gekk vel. Við megum gjarnan hugsa út í það, þegar við horfum framan í fjársjóðinn okkar í kvöld, hvað við eigum ótrúlega gott að þessu og flestu öðru leyti. Kannski verður það okkur hvatning til að leggja eitthvað af mörkum til þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem vinna með fátæku fólki í þróunarlöndunum, í sönnum anda þess sem fæddist í Betlehem, Jesú Krists. Gleðileg jól!
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun