Veiði

Hlíðarvatn gaf aðeins 725 bleikjur í fyrrasumar



Því ber að fagna hversu vel veiðist í sumarbyrjun í Hlíðavatni í Selvogi – sérstaklega undanfarna daga eftir að tók að hlýna. Á vefnum veiða.is greinir t.d. frá þessari ágætu veiði í tveimur aðskyldum fréttum þar sem hópar eru að landa nokkrum tugum fiska og þar af mörgum fallegum. Hópur sem var við veiðar 9. maí voru með um 30 bleikjur og var meðalþyngdin um þrjú pund. Ekki amarlegt það.

En þegar því er fagnað að veiðin fer vel af stað er það ekki að ástæðulausu því að í nýrri skýrslu frá sérfræðingum Veiðimálastofnunar kemur í ljós að aðeins 725 bleikjur voru skráðar í bók í fyrrasumar sem er miklu mun minna en á undanförnum árum. Ef horft er nokkur ár aftur í tímann má sjá að undanfarin 13 ár er meðalveiði 2.483 bleikjur.

Skýrslan heitir Rannsóknir á fiskstofnum Hlíðarvatns í Selvogi 2012, en höfundar hennar eru þeir  Friðþjófur Árnason, Benóný Jónsson og Árni Kristmundsson. Þar kemur jafnframt fram að sumarið 2011 voru færðar í bók 1.567 bleikjur; 2.626 voru þær sumarið 2010 og 3.663 sumarið 2009 svo horft sé sérstaklega til síðustu ára. Vart þarf að taka það fram að hvergi er veiði í stöðuvötnum skráð af meiri nákvæmni en úr Hlíðavatni en stangveiði er stunduð í vatninu af nokkrum veiðifélögum, eins og kunnugt er.  Algengt er að veiðimenn skrái hvern einstakan fisk þar sem fram koma m.a. upplýsingar um dagsetningu, tegund, þyngd og lengd ásamt upplýsingum um agn. Þetta er til fyrirmyndar og ætti að taka upp annars staðar í vatnaveiði þar sem kostur er á því.

Fyrsta bleikja sumarsins 2012 úr Hlíðavatni var færð til bókar 6. apríl og sú síðasta þann 5. október. Vikulegur fjöldi bleikju í stangveiðinni sýndi að flestar veiddust þær á tímabilinu 29. apríl til 30. júní og stendur fyrsta vikan í maí þar uppúr með 147 bleikjur. Í ágúst kemur annar smærri toppur í veiðina. Mjög fáar bleikur veiðast í september.

Skýrsluhöfundar ræða í löngu máli um ástæður þess að bleikju hefur fækkað í Hlíðarvatni  - og þá í samhengi við fækkun í fleiri vötnum sem eru áþekk því fyrsttalda. En áhugasamir geta kynnst sér skýrsluna hér, vilji þeir kynna sér rannsókn Veiðimálastofnunar nánar.

svavar@frettabladid.is


 

 






×