Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 23-24 | Stjarnan tekur forystu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Valli
Stjarnan vann sigur á Val í rafmögnuðum undanúrslitaleik N1-deildar kvenna. Lokatölur 23-24 á Hlíðarenda og Stjarnan því 2-1 yfir í einvíginu. Liðið getur tryggt sér sæti í úrslitum með sigri í Mýrinni á laugardag.

Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun. Stuðningsmenn Vals hlýddu kalli Hrafnhildar Skúladóttur og mætingin á leikinn í kvöld var flott. Áhorfendur fengu æsispennandi leik fyrir peninginn.

Stjarnan skoraði 15 mörk í fyrri hálfleik en það er afar sjaldgæft að Valsliðið fái þetta mörg mörk á sig í einum hálfleik! Rakel Dögg Bragadóttir var á eldi, skoraði hvert markið á fætur öðru og var komin með 8 eftir fyrri hálfleik.

Þriggja stiga forysta Stjörnunnar í hálfleik, 12-15 var staðan, en Valur skoraði fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og staðan orðin jöfn. Spennan hélst alveg til leiksloka. Stjarnan einu marki yfiir þegar nokkrar sekúndur voru eftir og Valur hélt í sóknina.

Heimakonur fengu aukakast þegar tíminn var runninn út. Þorgerður Anna Atladóttir, markahæsti leikmaður Vals í kvöld, tók skotið en í vegginn og Stjarnan fagnaði sigri þrátt fyrir að Rakel hafi ekki komist á blað eftir hálfleikinn.

Atli Hilmars: Getum ekki kvartað undan stuðningi í dag

„Þetta var rosalega svekkjandi því seinni hálfleikurinn hjá okkur var góð," sagði Atli Hilmarsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir leikinn.

„Við fáum okkur 15 mörk í fyrri hálfleik sem er mjög óvanalegt hjá Valsliðinu. Það var samt ekki einu sinni þannig að þær væru að dúndra á okkur hraðaupphlaupum sem þær eru frægar fyrir heldur hitti Rakel úr öllum skotunum sínum og það var ótrúlegt."

„Seinni hálfleikurinn var mjög góður. Það tók okkur fimm mínútur að jafna þetta. Svo gerðum við ótrúlega mikið af tæknifeilum, sendingamistök sem gáfu þeim hraðaupphlaup. Við klikkuðum úr dauðafærum og það fór með þetta."

„Við þurfum að taka það út úr þessu að það var mjög góður varnarleikur í seinni hálfleik. Vonandi náum við að framkalla þetta í báða hálfleikana á laugardaginn. Við eigum eitt tækifæri enn og við verðum að nýta það. Nú getum við ekki kvartað yfir stuðningi í dag, vonandi kemur þetta fólk aftur á laugardaginn. Það eina sem við getum gert er að svara á vellinum og spila góðan leik á laugardag."

„Við þurfum að fá framlag frá fleiri leikmönnum og ég held að þær viti það best sjálfar," sagði Atli.

Skúli Gunnsteins: Fáum vonandi enn fleiri Garðbæinga á laugardag

„Ég fann alveg fyrir því á hliðarlínunni að þetta var alvöru spenna," sagði Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Þetta var eins mikið og hægt var að gefa áhorfendum fyrir peninginn. Það er greinilega búið að hlýða kallinu hjá Hröbbu og það er mjög ánægjulegt fyrir handboltann. Ekki veitti af. Ég treysti því að við fáum enn fleiri Garðbæinga á laugardaginn. Auðvitað var Stjarnan að spila í körfunni í Grindavík í kvöld. Ég vona að við fáum troðfulla Mýri á laugardaginn og planið er að klára þetta þar."

„Ég var í kvöld heilt yfir sáttur við það sem mestu máli skiptir og það er varnarleikurinn. Við erum ekki að fá mörg mörk á okkur. Þær áherslur sem við lögðum upp með varnarlega gengu eftir."

Rakel Dögg Bragadóttir átti magnaðan leik í fyrri hálfleik og skoraði öll átta mörk sín í honum.

„Hún spilaði ótrúlega vel í fyrri hálfleik. Ég var heilt yfir mjög ánægður með liðið en mér finnst samt að við eigum ýmislegt inni, ekki síst sóknarlega í seinni hálfleik. En þetta eru erfiðir leikir og spenna svo það fer kannski ekki mikið fyrir gæðunum," sagði Skúli.

„Við verðum að vera á jörðinni. Þetta einvígi er langt frá því að vera búið. Valur hefur ekki tapað tveimur leikjum í röð í kvennaboltanum í einhver hundrað ár. Þær verða dýrvitlausar en við þurfum 100% einbeitingu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×