Lífið

Jóga setur aðeins meira líf í náttúruna

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Fólk á vegum Healing Nature setur sig í jógastellingar í Þórsmörk.
Fólk á vegum Healing Nature setur sig í jógastellingar í Þórsmörk. Ingrid Karlsen
„Að stunda jóga úti í náttúrunni er yndislegt. Grasið verður grænna, himinninn blárri, það er eins og það komi aðeins meira líf í allt, “segir Emil Tsakalis, annar aðstandenda Healing Nature sem bjóða upp á jógagönguferðir og nudd í mongólsku hringtjaldi í Þórsmörk í sumar.

Emil og félagi hans, Magnús Andri Pálsson, eru báðir jógakennarar og nuddarar og hafa komið upp aðstöðu í Þórsmörk í samstarfi við Volcano Huts. Þar hefur fólk val um að gista í eigin tjaldi eða leigja kofa. „Við erum með margs konar dagskrá en allt miðast við að fá kraftinn beint úr náttúrunni. Við leggjum mikið upp úr jógagönguferðum og þá byrjum við að taka smá power-jóga áður en við leggjum af stað til þess að undirbúa líkamann fyrir það sem er í vændum. Svo stoppum við nokkrum sinnum á leiðinni og tökum æfingar. Þá leggjum við sérstaka áherslu á vöðva og líkams­parta sem við erum að nota í göngunni.“

Tjaldið sem þeir félagar nota er eftir mongólskri fyrirmynd og segir Emil það henta íslensku veðurfari mjög vel. „Það er ekkert yndislegra en að fara í nudd í heitu tjaldinu og hlusta á fuglasönginn sem hljómar fyrir utan og vindinn ef svo ber við.“

Að sögn Emils hefur fyrirtækið farið vel af stað og Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn notið þjónustunnar. „Við erum tveir í þessu núna en það kemur til greina að fjölga kennurum og nuddurum þegar líður á sumarið ef vel gengur. Við finnum fyrir miklum áhuga en fólk þarf ekki að vera vant jógaiðkun til að koma til okkar.“

Stefnan er að bjóða upp á jóga og nudd á fimmtudögum til sunnudags fram í miðjan september.

Hægt er að panta tíma á síðunni volcanohuts.com.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.