Lífið

Vala Höskuldsdóttir borðaði fífla í matinn

Sara McMahon skrifar
Vala Höskuldsdóttir listakona hafði ásett sér að eyða engu þennan mánuð. Hún gafst þó upp á endanum og borgaði sig í sund á Akureyri.
Vala Höskuldsdóttir listakona hafði ásett sér að eyða engu þennan mánuð. Hún gafst þó upp á endanum og borgaði sig í sund á Akureyri. Fréttablaðið/stefán
„Ég var búin að lifa á matnum sem ég átti inni í ísskáp, hafði prófað að tína fífla í matinn, var hætt að reykja og það gekk allt vel. En svo fór ég í frí til Akureyrar með konunni minni og einn sólríkan dag tjáir hún mér að hún ætli í sund og þá gat ég ekki meira,“ segir listakonan Vala Höskuldsdóttir, sem hafði einsett sér að eyða ekki einni einustu krónu þennan mánuð.

Á mánudag skrifaði Vala aftur á móti færslu á Facebook þar sem hún játaði að hún gæti ekki lifað án peninga og hefði borgað sig í sund.

Þótt Vala hafi ekki þraukað peningalaus í heilan mánuð segist hún vera reynslunni ríkari. „Ég gerði þessa tilraun því ég hafði ekki efni á því að lifa eins og ég gerði. Ég vona að ég detti ekki aftur í sama gamla farið heldur hafi lært að láta tekjur hvers mánaðar duga,“ segir hún.

Á meðan á tilrauninni stóð tók Vala ekki við neinum gjöfum frá vinum og vandamönnum heldur átti við þá vöruskipti. Eitt skipti var henni boðið í mat gegn því að slá garðinn fyrir viðkomandi.

Að sögn Völu tók eiginkona hennar, Eva Rún Snorradóttir, vel í hugmyndina þótt hún hafi ekki tekið þátt í tilrauninni. „Hún var í útlöndum fyrstu tvær vikurnar í júní. Svo þegar hún kom heim, þreytt eftir ferðalagið, var ekkert ætt til á heimilinu þannig að hún hafði eiginlega ekki orku í þetta þótt henni hafi þótt hugmyndin góð.“

Þegar Vala er að lokum spurð hvort hún ætli að halda tilrauninni áfram síðar svarar hún játandi. „Þetta kom mikilli reglu á lífið og það væri gaman að endurtaka þetta að ári sem eins konar neysluföstu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.