Þótt útlitið sé svart ákveður Stacker Pentecost, yfirmaður Jaeger-deildarinnar, að berjast til síðasta vélmennis, í orðsins fyllstu merkingu, og fær til liðs við sig flugmann að nafni Raleigh Becket. Becket þessi hafði áður stýrt vélmenninu Gipsy Danger ásamt bróður sínum, en hætti störfum eftir andlát bróður síns. Úr verður að Becket stýrir Gipsy Danger ásamt Mako Mori, ættleiddri dóttur Pentecosts, og ætla þau að verjast eins lengi og þeim er það unnt.
Það er mexíkóski leikstjórinn Guillermo del Toro sem leikstýrir kvikmyndinni, en hann er hvað þekktastur fyrir ævintýrahrollvekjuna Pan‘s Labyrinth. Með helstu aðalhlutverk fara bresku leikararnir Charlie Hunnam og Idris Elba, ásamt japönsku leikkonunni Rinko Kikuchi.
Del Toro segist hafa valið Hunnam í hlutverk Beckets því honum þótti hann einlægur og vinalegur í fasi. „Hann er týpa sem fólk samsamar sig. Sem áhorfandi hugsa ég: Ég kann vel við þennan náunga, ég væri til í að fá mér nokkra bjóra með honum,“ sagði del Toro.
Hann hrósaði jafnframt aðalleikkonu sinni, Kikuchi, og sagði hana hafa staðið sig eins og hetju á meðan á tökum stóð. „Hún var sú eina sem kvartaði aldrei undan líkamlegu álagi við tökur. Ég spurði hana hvert leyndarmál hennar væri og hún sagðist hugsa um gúmmíbirni og blóm. Ég geri það sjálfur í dag,“ sagði leikstjórinn.
Kvikmyndin fékk 71 prósent í einkunn á vefsíðunni Rottentomatoes.com og 7,9 í einkunn á Imdb.com. Kvikmyndarýnar segja myndina vera „fáránlega góða skemmtun“ og mikið sjónarspil.