Bakþankar

Morðæði

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ég klifra upp stiga á hárri byggingu. Ég dreg fram haglabyssu og miða á gangstéttina fyrir neðan. Plaff! Fyrsta manneskja sem gengur framhjá dettur niður dauð. Svo reyni ég að ná svona fjórum eða fimm til viðbótar. Restina af skotfærunum geymi ég fyrir lögregluna. Mínútu síðar er ég umkringdur. Ég næ að drepa nokkrar löggur áður en ég dey sjálfur í kúlnaregni. Einhverra hluta vegna lifna ég aftur við. Eftir stutta dvöl á sjúkrahúsi er mér hleypt út í samfélagið á ný. Ég bíð ekki boðanna heldur ræðst á saklausa eldri konu fyrir utan sjúkrahúsið. Stappa á hausnum á henni og hleyp svo út á götu þar sem ég stel bíl. Ég reyni að keyra eins marga niður og ég get áður en lögreglan handtekur mig.

Ég veit ekki af hverju ég geri það sem ég geri. Verkefnin í GTA V eru í sjálfu sér ekki erfið, en mér finnst mun skemmtilegra að hlaupa í morðæði um tölvuleikinn en að leysa þau. Alveg eins og mér fannst mun skemmtilegra að tækla markmann litla bróður míns í FIFA 2000 en að spila við hann fótbolta. Jafnvel þó það endaði iðulega með því að bróðir minn slökkti öskrandi og emjandi á tölvunni.

Ég útiloka auðvitað ekki að ég eigi eitthvað bágt, en hvernig stendur þá á því að þessi ofbeldishneigð mín hefur aldrei látið á sér kræla í raunveruleikanum? Ég hugsa enn til þess með hryllingi þegar ég ákvað að lina þjáningar hálfétins fugls á Höfn í Hornafirði sem hafði orðið ketti að bráð. Ef ég yrði manneskju að bana er ég hræddur um að ég myndi aldrei líta glaðan dag framar. En í tölvuleikjum er ég ótemja og hrotti.

Kannski á þetta sér eðlilega skýringu. Hver einasti dagur er stútfullur af verkefnum. Vinnu, innkaupum, leiðinlegum símtölum, eldamennsku, uppvaski og ef þú leysir ekki verkefnin hefur það afleiðingar í för með sér. Af hverju ætti ég að bæta á verkefnin í einhverjum tölvuleik á meðan ég get framið fjöldamorð án afleiðinga? Líklega er skýringin samt sú að ég er með eindæmum lélegur í tölvuleikjum.






×