Markahæsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu frá upphafi, Margrét Lára Viðarsdóttir, útskrifaðist í dag með sálfræðigráðu frá Háskólanum á Akureyri.
Margrét Lára, sem spilar sem atvinnumaður með liði Kristianstad í Svíþjóð, hefur setið á skólabekk meðfram knattspyrnuferli sínum. Algengt er að íslenskir knattspyrnumenn erlendis einbeiti sér fyrst og fremst að íþrótt sinni og taki því rólega utan æfinga en svo er ekki í tilfelli Margrétar Láru.
Markadrottningin fetar í fótspor ekki ómerkari landsliðsmanna en Árna Gauts Arasonar, Guðna Bergssonar og Katrínar Jónsdóttur landsliðsfyrirliða sem öll luku námi meðfram atvinnumannaferlum sínum.
Margrét Lára er fimmti markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í Svíþjóð með sjö mörk í ellefu leikjum. Þá hefur hún lagt upp þrjú mörk fyrir liðsfélaga sína. Hlé hefur verið gert á tímabilinu í Svíþjóð vegna Evrópumóts kvennalandsliða sem fram fer í landinu í júlí. Þar verður Margrét Lára í eldlínunni með íslenska landsliðinu.
