Lífið

Sömdu fyrir The Saturdays

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Íslenska upptökuteymið StopWaitGo seldi diskósmell til stúlknasveitarinnar The Saturdays á dögunum.
Íslenska upptökuteymið StopWaitGo seldi diskósmell til stúlknasveitarinnar The Saturdays á dögunum.
„Þetta er stærsti áfangi okkar hingað til,“ segir Ásgeir Orri Ásgeirsson úr upptökuteyminu StopWaitGo en þremenningarnir seldu á dögunum lag úr sínum herbúðum til bresku stúlknasveitarinnar The Saturdays.

Hljómsveitin nýtur gríðarlegra vinsælda í Bretlandi og því ljóst að sigurinn er stór fyrir upptökuteymið íslenska. Ásgeir segir að lagið verði á næstu plötu stúlknasveitarinnar. „Við vonumst bara til að úr þessu verði gerð smáskífa, lagið fái spilun í útvarpi og að það komi út myndband.“

Ásgeir segir ferlið hafa tekið sinn tíma og að þeir hafi sent út sjö útgáfur af laginu áður en allt var tekið í sátt. „Oft er það bara þannig að maður lendir á fólki sem þykist vita meira en maður sjálfur og það verður bara að kyngja því.“

Lagið sjálft hefur ekki enn hlotið nafn en Ásgeir segir það eins konar diskósmell. „Þetta er mjög skemmtilegur tími til að semja og selja lag með diskóívafi því akkúrat núna eru diskósveiflur í gangi í tónlistinni,“ segir Ásgeir og bendir á sumarsmellinn Get Lucky með Daft Punk og Pharrell Williams, sem og lagið Treasure með Bruno Mars. „Það er vonandi að þessi uppsveifla í diskóinu nýtist okkur og að við getum gert lagið að smáskífu sem fyrst.“

Spurður að því hvað þeir í StopWaitGo séu að bralla núna segir Ásgeir þá hafa nóg á sinni könnu. „Við erum með næg verkefni bæði hér á landi og úti. Við höldum okkur mjög uppteknum.“

The SaturdaysStúlknasveitin The Saturdays var stofnuð árið 2007 en hún er skipuð þeim Unu Healy, Mollie King, Frankie Sandford, Vanessu White og Rochelle Humes. 

Sveitin nýtur gríðarlegra vinsælda í Bretlandi og hefur hún síðastliðin þrjú ár hlotið verðlaun sem besta hljómsveitin á verðlaunahátíðinni „Women of the Year“ sem breska tímaritið Glamour heldur árlega.

Um 1,3 milljónir hafa smellt á „like“-hnapp hljómsveitarinnar á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.