Veiði

Minnkandi laxgengd kemur fram í meðafla skipa

Smálaxagöngur skiluðu sér ekki í fyrrasumar. Þetta kom jafnframt fram í því að meðafli á laxi í makrílafla varð minni, þrátt fyrir að ekki sé um íslenskan lax að ræða.
Smálaxagöngur skiluðu sér ekki í fyrrasumar. Þetta kom jafnframt fram í því að meðafli á laxi í makrílafla varð minni, þrátt fyrir að ekki sé um íslenskan lax að ræða. Mynd/Svavar
Lax sem meðafli í uppsjávarveiðum í fyrrasumar var minni en árin á undan, samkvæmt rannsóknum Fiskistofu. Þetta er í samræmi við minnkandi laxgengd fyrrasumar sem kom skýrt fram í hruni í laxveiði á stöng.

Rannsóknir benda til að raunhæft sé að áætla að einn til tveir laxar veiðist við Ísland sem meðafli á hver þúsund tonn í uppsjávarveiðum á makríl og síld. Alls hafa 466 skilað sér til Fiskistofu á þriggja ára tímabili. Meiri lax veiddist sem meðafli árin 2010 og 2011 en sumarið 2012, sem er í samræmi við minnkandi smálaxagengd hér við land og í nágrannalöndunum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð Árna Ísakssonar og Sumarliða Óskarssonar, sérfræðinga á Fiskistofu, um meðafla á laxi í flotvörpuveiði. Þar er litið til dreifingar og uppruna laxa í hafinu umhverfis Ísland. Rannsóknin er hluti af fjölþjóðlegu verkefni, SALSEA, þar sem afkoma og afdrif laxa í sjó er rannsökuð, og hófst 2005.

Í greinargerðinni kemur fram að meðaflatölur fyrir 2010 og 2011 voru sambærilegar eða að meðaltali 200 laxar hvort árið en meðafli sumarið 2012 var aðeins um 50 laxar, sem er um 25% af meðaltali áranna á undan.

Árni segir það kannski einna eftirtektarverðast að minnkandi heimtur úr uppsjávarveiðunum séu í svo góðu samræmi við minnkandi laxgengd í fyrrasumar, sem skýrt kom fram í hruni í laxveiði á stöng. Tilgangurinn með verkefninu sé heilt yfir séð að fá sýni á laxi til rannsókna, en fram til þessa hafa vísindamenn að mestu þurft að geta sér til um laxgengd við landið. "Hér hafa fengist mikilvægar upplýsingar um dreifingu, og ekki síður uppruna þeirra laxa sem hafast við í lögsögunni," segir Árni. "Þá kemur í ljós að laxinn sem veiðist er að minnstu leyti af íslenskum uppruna."

Veiðimálastofnun og MATÍS hafa lokið skoðun á uppruna þeirra laxa sem veiddust sem meðafli á árinu 2010. Eins og endurheimt merki gefa vísbendingu um, hefur komið í ljós að yfir 95% af laxinum er upprunninn í öðrum Evrópulöndum, svo sem Noregi og Bretlandseyjum. Sýni frá árunum 2011-12 hafa einnig farið til Veiðimálastofnunar og MATÍS en niðurstöður varðandi líffræðilega þætti og uppruna þeirra laxa liggja enn ekki fyrir.

Stefnt er að því að Fiskistofa haldi áfram sýnatöku úr flotvörpuveiði á árinu 2013, enda varpa rannsóknirnar ljósi á dreifingu og uppruna þeirra laxa sem dvelja á miðunum umhverfis landið í lengri eða skemmri tíma.

Frekari pælingar um þetta efni má finna hér.

svavar@frettabladid.is






×