Tækifæri í tollalækkun Ólafur Þ. Stephensen skrifar 8. maí 2013 07:00 Þegar fréttist af Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í Krónunni í Mosfellsbæ að kaupa inn fyrir stjórnarmyndunarviðræðurnar í sveitinni sendu Samtök verzlunar og þjónustu formönnunum áskorun. Þar eru þeir hvattir til að skoða vel strimilinn sem þeir fengu í Krónunni og íhuga að taka rækilega til í álagningu tolla og gjalda á neyzluvörur til þess að lækka vöruverð í landinu. Þetta er sannarlega þörf ábending, þótt sjálfsagt séu margir hóflega bjartsýnir á að formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins taki nokkurt mark á henni. Breyting á tollum þýðir nefnilega líka talsverða breytingu á rekstrarumhverfi landbúnaðarins og þessir flokkar hafa í sameiningu yfirleitt staðið dyggan vörð um sérhagsmuni og óskilvirkt stjórnkerfi í landbúnaði. Þó er ekki eins og fráfarandi stjórnarflokkar séu skárri að því leytinu. Á sama tíma og einhver mesti niðurskurður ríkisútgjalda frá upphafi átti sér stað, var ekki hróflað við landbúnaðarkerfinu. Stuðningur íslenzkra skattgreiðenda við atvinnugreinina er enn einhver sá hæsti í heimi, meira en helmingi hærri en að meðaltali í Evrópusambandinu eða OECD-löndum, sama við hvort er miðað. Það er óneitanlega undarlegt að landbúnaðarkerfið hafi sloppið við niðurskurð og uppstokkun, en kannski var síðasta stjórn of upptekin við að reyna að eyðileggja stjórnkerfi sem virkar í sjávarútveginum til að geta sinnt landbúnaðarkerfi sem virkar alveg augljóslega ekki. Íslenzkir skattgreiðendur borga einhverja hæstu landbúnaðarstyrki í heimi til að geta svo keypt einhverjar dýrustu búvörur í heimi. SVÞ benda réttilega á að lækkun tolla væri ein skilvirkasta leiðin til að lækka vöruverð. Það mætti byrja á því að afnema tolla á innfluttan kjúkling og svínakjöt, enda er ekki verið að vernda neina aldagamla búsetuhætti eða sveitamenningu með því að verja verksmiðjuframleiðslu fyrir erlendri samkeppni. Samtökin hafa líka rétt fyrir sér í því að svigrúm til launahækkana í næstu kjarasamningum er lítið. Átak til lækkunar vöruverðs er nærtækari leið til að efla kaupmátt heimilanna. Slík kaupmáttaraukning kemur stórum hluta fjölskyldna í landinu, til dæmis fólki í leiguhúsnæði, miklu betur en lækkun húsnæðisskulda sem virðist vera það sem stjórnmálaflokkarnir einblína á. Að minnsta kosti annar flokksformaðurinn er ekki fráhverfur þessum hugmyndum. Þegar Melabúðin lækkaði verð hjá sér um tugi prósenta í einn klukkutíma í kosningabaráttunni, til að sýna hvað ýmsar vörur gætu kostað ef tollverndin væri afnumin og vörugjöldin lækkuð, skrifaði Bjarni Benediktsson á Facebook-síðuna sína: „Flott framtak hjá Melabúðinni. Það þarf að taka vörugjöld, tolla og skatta til endurskoðunar og lækka.“ Mikið væri nú ánægjulegt ef flokksformennirnir við eldhúsborðið í sumarbústaðnum kæmu auga á þau stóru, vannýttu tækifæri til kjarabóta fyrir almenning sem liggja í lækkun á tollum og vörugjöldum – og skelltu skollaeyrum við hinu venjulega sífri verndarstefnufólks í flokkunum báðum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Þegar fréttist af Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í Krónunni í Mosfellsbæ að kaupa inn fyrir stjórnarmyndunarviðræðurnar í sveitinni sendu Samtök verzlunar og þjónustu formönnunum áskorun. Þar eru þeir hvattir til að skoða vel strimilinn sem þeir fengu í Krónunni og íhuga að taka rækilega til í álagningu tolla og gjalda á neyzluvörur til þess að lækka vöruverð í landinu. Þetta er sannarlega þörf ábending, þótt sjálfsagt séu margir hóflega bjartsýnir á að formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins taki nokkurt mark á henni. Breyting á tollum þýðir nefnilega líka talsverða breytingu á rekstrarumhverfi landbúnaðarins og þessir flokkar hafa í sameiningu yfirleitt staðið dyggan vörð um sérhagsmuni og óskilvirkt stjórnkerfi í landbúnaði. Þó er ekki eins og fráfarandi stjórnarflokkar séu skárri að því leytinu. Á sama tíma og einhver mesti niðurskurður ríkisútgjalda frá upphafi átti sér stað, var ekki hróflað við landbúnaðarkerfinu. Stuðningur íslenzkra skattgreiðenda við atvinnugreinina er enn einhver sá hæsti í heimi, meira en helmingi hærri en að meðaltali í Evrópusambandinu eða OECD-löndum, sama við hvort er miðað. Það er óneitanlega undarlegt að landbúnaðarkerfið hafi sloppið við niðurskurð og uppstokkun, en kannski var síðasta stjórn of upptekin við að reyna að eyðileggja stjórnkerfi sem virkar í sjávarútveginum til að geta sinnt landbúnaðarkerfi sem virkar alveg augljóslega ekki. Íslenzkir skattgreiðendur borga einhverja hæstu landbúnaðarstyrki í heimi til að geta svo keypt einhverjar dýrustu búvörur í heimi. SVÞ benda réttilega á að lækkun tolla væri ein skilvirkasta leiðin til að lækka vöruverð. Það mætti byrja á því að afnema tolla á innfluttan kjúkling og svínakjöt, enda er ekki verið að vernda neina aldagamla búsetuhætti eða sveitamenningu með því að verja verksmiðjuframleiðslu fyrir erlendri samkeppni. Samtökin hafa líka rétt fyrir sér í því að svigrúm til launahækkana í næstu kjarasamningum er lítið. Átak til lækkunar vöruverðs er nærtækari leið til að efla kaupmátt heimilanna. Slík kaupmáttaraukning kemur stórum hluta fjölskyldna í landinu, til dæmis fólki í leiguhúsnæði, miklu betur en lækkun húsnæðisskulda sem virðist vera það sem stjórnmálaflokkarnir einblína á. Að minnsta kosti annar flokksformaðurinn er ekki fráhverfur þessum hugmyndum. Þegar Melabúðin lækkaði verð hjá sér um tugi prósenta í einn klukkutíma í kosningabaráttunni, til að sýna hvað ýmsar vörur gætu kostað ef tollverndin væri afnumin og vörugjöldin lækkuð, skrifaði Bjarni Benediktsson á Facebook-síðuna sína: „Flott framtak hjá Melabúðinni. Það þarf að taka vörugjöld, tolla og skatta til endurskoðunar og lækka.“ Mikið væri nú ánægjulegt ef flokksformennirnir við eldhúsborðið í sumarbústaðnum kæmu auga á þau stóru, vannýttu tækifæri til kjarabóta fyrir almenning sem liggja í lækkun á tollum og vörugjöldum – og skelltu skollaeyrum við hinu venjulega sífri verndarstefnufólks í flokkunum báðum.