Lífið

Upplifði ofbeldi í ástarsamböndum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jennifer Lopez.
Jennifer Lopez. vísir/getty
Söng- og leikkonan Jennifer Lopez opnar sig í endurminningum sínum, True Love, sem koma út innan skamms.

Í bókinni segist hún hafa upplifað ofbeldi í ástarsamböndum sínum en nafngreinir ekki þá sem beittu hana ofbeldi.

„Ég hef aldrei fengið glóðurauga eða sprungna vör en mér hefur fundist ég hafa verið beitt ofbeldi á einn eða annan hátt: andlega, tilfinningalega og með orðum,“ skrifar Jennifer. Hún segir einnig frá því af hverju hún skildi við tónlistarmanninn Marc Anthony árið 2011 en þau eiga saman tvíburana Max og Emme sem eru sex ára.

Bók Jennifer heitir True Love.
Endurminningar Jennifers urðu að bók sem hún ætlaði ekki að skrifa eins og hún segir frá í viðtali við tímaritið People.

„Þetta byrjaði sem aðdáendabók, dagbók um árin sem ég var á tónleikaferðalagi. En hún varð að einhverju öðru. Ég byrjaði að skoða hluti og bókin hjálpaði mér að horfast í augu við margt. Ég myndi aldrei lýsa samböndum mínum í smáatriðum og ég geri það ekki en hugmyndin var að ég lærði eitthvað,“ segir hún.

Jennifer, sem hefur verið gift þrisvar sinnum, segist hafa lært mikið um ást og hvað það þýðir að standa með sjálfri sér.

„Dagurinn sem þú labbar ekki út, sem þú sættir þig við eitthvað í fari maka þíns og þíns sjálfs er dagurinn sem þú samþykkir svona hegðun,“ skrifar hún í bókinni. Hún segir að Marc Anthony styðji hana í skrifunum.

„Hann las hana og sagði: Vá, ég fattaði ekki að þú værir að ganga í gegnum þetta. Við reynum að styðja hvort annað. Okkur finnst það best fyrir börnin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×