Lífið

Secret Solstice fær leyfi fyrir 2015

Freyr Bjarnason skrifar
Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í sumar í Laugardalnum og gekk hún vel fyrir sig.
Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í sumar í Laugardalnum og gekk hún vel fyrir sig. Fréttablaðið/Daníel
„Við erum í skýjunum yfir að fá leyfið fyrir næsta ár,“ segir Egill Thorarensen, einn af skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice.

Samningar hafa náðst á milli Secret Solstice, Reykjavíkurborgar og hverfisráða í Laugardalnum um að hátíðin verði haldin á nýjan leik næsta sumar. „Við erum full tilhlökkunar og um leið og þetta datt í hús negldum við fyrstu listamennina,“ segir Egill.

Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í sumar og gekk vel fyrir sig. Yfir 150 tónlistarmenn og hljómsveitir komu fram. Þegar mest lét, á tónleikum aðalnúmersins Massive Attack, voru áhorfendur á bilinu sjö til átta þúsund. Eitthvað var um kvartanir frá nágrönnum vegna hávaða.

Egill lofar enn skemmtilegri hátíð á næsta ári.Fréttablaðið/Ernir
„Laugardalurinn er mjög rótgróið hverfi og það er ekki sjálfgefið að fá leyfi til að ónáða þetta fólk sem þarna býr með smá hávaða,“ segir Egill. 

„Auðvitað þarf maður að vinna með hverfisráðum og borginni til þess að allt gangi upp en við erum búin að uppfylla öll skilyrðin sem okkur voru sett.“

Tónleikar voru samtímis haldnir á fimm sviðum í sumar. Aðspurður segir Egill að ekki hafi verið ákveðið hvernig fyrirkomulagið verður á næsta ári. „Við erum að skoða í samráði við hverfisráð og borgarstjórn hvernig er hægt að dreifa hávaðanum þannig að hann hafi sem minnst áhrif á íbúa.“

Hann segir að dagskráin muni byrja seinna á næstu hátíð. „Ég held að það hafi verið ofmat að geta ginnt Íslendinga á tónleika klukkan tólf á hádegi á föstudegi. Við vitum miklu betur hvað við erum að geta þetta árið,“ segir Egill og bætir við að miðasala hefjist í næstu viku.

Á þriðja tug tónleikagesta var kærður fyrir vörslu fíkniefna á Secret Solstice í sumar en friður og kærleikur voru samt í fyrirrúmi.

„Það stóð upp úr að þetta var ofbeldislaus hátíð og fólk skemmti sér vel. Við lofum að fólk getur gert enn meiri væntingar til næstu hátíðar.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.