Lífið

Hræddust við skógarnornir og grádverga

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Í skóginum „Mér finnst skemmtilegast að vera úti að leika mér og gera prakkarastrik með Birki vini mínum,“ segir Ronja.
Í skóginum „Mér finnst skemmtilegast að vera úti að leika mér og gera prakkarastrik með Birki vini mínum,“ segir Ronja. Mynd/Solla Matt
Ertu frænka Línu Langsokks?

„Nei, Lína Langsokkur er ekki frænka mín en við erum ótrúlega góðar vinkonur og erum oft í keppni um hvor er sterkari.“

Hvar áttu heima?

„Ég á heima í Matthíasarborg sem er í Matthíasarskógi með öllum ræningjunum og pabba mínum og mömmu.“

Við hvað vinna foreldrar þínir?

„Pabbi minn er sko ræningjaforinginn og mamma mín rekur heimilið. Hún þvær og skrúbbar ræningjana og eldar ofan í okkur.“

Eru villidýr á kreiki í skóginum?

„Það er fullt af hættulegum verum í skóginum til dæmis skógarnornir og grádvergar! Pabbi minn segir að ég verði að passa mig á þeim þegar ég fer út í skóg.“

Ertu oft í hættu?

„Já, ég er alltaf að lenda í alls konar hættum í skóginum en ég kann alveg að takast á við hætturnar. Stundum kemur Birkir vinur minn og hjálpar mér.“

Hvað ertu hræddust við?

„Ég er hræddust við skógarnornirnar og grádvergana en pabbi minn segir samt að ég megi ekki láta þá sjá að ég sé hrædd.“

Áttu einhver húsdýr?

„Nei, ég á engin húsdýr en ég á samt öll dýrin í skóginum af því þetta er Matthíasarskógur og allt sem er í honum á ég!“

Veiðir þú þér til matar?

„Já, stundum, þegar ég fer að heiman og þarf að sjá um mig sjálf þá veiði ég mér til matar með Birki, til dæmis fisk.“

Hvað borðar þú aðallega?

„Ég borða allt milli himins og jarðar, mér finnst allur matur svo góður og ég klára líka alltaf matinn minn.“

Syngur þú mikið?

„Já, ég syng alveg rosalega mikið ég er alltaf syngjandi og dansandi.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?

„Mér finnst skemmtilegast að vera úti að leika mér og gera prakkarastrik með Birki vini mínum í skóginum. Hann er sko besti vinur minn. Svo finnst mér líka ótrúlega gaman að syngja og dansa með ræningjunum heima, þeir eru svo fyndnir og skrítnir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×