Handbolti

Patrekur: Sparaði vestismanninn fyrir rétta leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka. Vísir/Valli
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, sagði eftir leik að það hefði verið sætt að fagna sigri sinna manna gegn hans gömlu lærisveinum í Val. Haukar slógu Val út úr Coca Cola bikar karla í handbolta í kvöld.

„Það var bara allt undir í þessum leik og þetta var frábært. Valsmenn eru með gríðarlega sterkt lið, sérstaklega á heimavelli,“ sagði Patrekur.

Hann segir að þeir hefðu æft það vel á æfingum að taka markvörðinn út af og bæta sjöunda manninum við sóknarleikinn. „Við vorum þó ekkert búnir að nota þetta en ég var að geyma þetta útspil fyrir rétta leikinn,“ sagði Patrekur.

Herbragðið gekk upp gegn sterkri vörn Valsmanna en Patrekur hrósaði henni. „Óli [Ólafur Stefánsson, þjálfari Vals] hefur verið að gera góða hluti með þessum varnarleik en mér fannst við samt ná að leysa hana ágætlega. Bubbi [Hlynur Morthens] varði bara allt sem á markið kom.“

„Því ákvað ég að taka þennan séns og fara í sjö á sex. Það hafði virkað svo vel á æfingum,“ bætti Patrekur við.

Hann var ánægður með frammistöðu sinna manna þó svo að varnarleikur liðsins hafi verið slakur í upphafi leiks. „Menn gáfust bara aldrei upp og það sýndi hversu mikill sigurvilji ríkir í liðinu. Aðaláherslan hjá mér hefur allaf verið að vinna deildina en það er frábær bónus að komast í höllina.“

Úrslitahelgin í bikarkeppninni fer fram í Laugardalshöllinni í lok mánaðarins og Patrekur segir að hans lið hafi ekki viljað missa af henni. „Ég held að nánast allir aðrir flokkar í Haukum séu komnir áfram í bikarnum og það kom því ekki til greina að vera þeir einu sem sitjum eftir,“ sagði hann og brosti.

Giedrius Morkunas hafði átt fínan leik í marki Haukanna eftir erfiða byrjun en engu að síður ákvað Patrekur að setja Einar Ólaf inn á þegar fimmtán mínútur voru eftir. Það reyndist afar mikilvægt á lokasprettinum.

„Giedrius er frábær markvörður og hefur verið einn sá besti í deildinni í vetur. En hann vinnur mjög mikið og mér fannst hann bara pínu þreyttur. Ég bara veðjaði á Einar enda hef ég verið að bíða eftir því að hann myndi grípa sitt tækifæri. Það gerði hann í kvöld.“

„Ég þarf bara að tékka á því hvort að Goggi [Morkunas] hafi ekki örugglega hætt í vinnunni á hádegi í dag,“ sagði hann og hló.


Tengdar fréttir

ÍR fjórða liðið inn í undanúrslitin

Bikarmeistarar ÍR eru komnir í undanúrslit Coca Cola-bikar karla í handbolta eftir 28-23 sigur á Selfossi í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×