Handbolti

Engin uppgjöf þrátt fyrir 30 marka tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Orri Freyr Gíslason er sloppinn í gegn en Vilhelm Gauti Bergsveinsson virðist furðu lostinn.
Orri Freyr Gíslason er sloppinn í gegn en Vilhelm Gauti Bergsveinsson virðist furðu lostinn. fréttablaðið/valli
Áhorfendur í Vodafone-höllinni á föstudagskvöld urðu vitni að ótrúlegum handboltaleik þegar að heimamenn hreinlega gengu frá botnliði HK í Olísdeild karla með 30 marka sigri, 48-18. Sigurinn kom fáum á óvart en enginn bjóst við að lið sem varð Íslandsmeistari fyrir aðeins tveimur árum myndi grúttapa með 30 marka mun.

„Ég reyni yfirleitt að draga lærdóm af hverjum leik en þetta var þannig frammistaða að það er einfaldlega ekki hægt að læra neitt af henni,“ sagði Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK, við Fréttablaðið um helgina. Hann stýrði sínum mönnum á æfingu í hádeginu á laugardag og sagði hana hafa gengið vel.

„Við erum búnir að ræða vel saman og enginn vill upplifa aðra eins tilfinningu eftir leik aftur svo lengi sem menn stunda þessa íþrótt. Menn skammast sín vitanlega en þetta er bara einn leikur í stóra samhenginu og bara tvö stig sem töpuðust,“ bætir Samúel Ívar við.

Víðir Reynisson, formaður handknattleiksdeildar HK, tók í svipaðan streng. „Það stóð ekki steinn yfir steini í neinu sem hafði verið undirbúið fyrir leik. En það er góður andi í hópnum og mikill hugur á að snúa genginu við,“ segir formaðurinn sem hefur ekki áhyggjur af liðinu.

„Það kann kannski að koma einhverjum á óvart en það er engin örvænting hjá okkur. Þegar við hófum tímabilið vissum við vel að við værum með ungt lið í höndunum og að veturinn yrði erfiður,“ segir Víðir.

Eftir að HK varð Íslandsmeistari árið 2012 hefur liðið misst gríðarlega marga leikmenn. Margir hverjir hafa fengið tækifæri erlendis og sumir, líkt og varnartröllið Bjarki Már Gunnarsson, unnið sér fast sæti í íslenska landsliðshópnum.

„Við tókum ákvörðun í sumar um að leggja af stað í 3-4 ára verkefni þar sem stefnt væri að því að hlúa að okkar eigin leikmönnum og byggja upp lið fyrir framtíðina. Við vorum undir það búnir að falla og erum enn, þó svo að það sé að sjálfsögðu fullur hugur í mönnum að gera allt sem til þarf til að bjarga sæti liðsins í deildinni,“ segir Víðir og bætir við að það hafi ekki komið til greina að kaupa dýra leikmenn til félagsins í janúar til að styrkja liðið fyrir síðari hluta tímabilsins.

„Við ætlum að einbeita okkur áfram að því að byggja upp að nýju og búa til fleiri góða leikmenn eins og við höfum gert síðustu árin.“

Samúel Ívar á það verðuga verkefni fyrir höndum að undirbúa liðið fyrir erfiðan leik gegn toppliði Hauka á fimmtudagskvöldið. „Það er engin uppgjöf í okkar leikmönnum. Þrátt fyrir allt hefur margt jákvætt einkennt okkar leik í vetur og það versta sem hægt er að gera er að láta ein mistök orsaka önnur. Það er alltaf næsti leikur og næsta verkefni sem tekur við.“



Staðreyndir um 30 marka sigur Vals á HK

- Skotnýting Vals var 84% í leiknum öllum og 96% síðustu 28 mínútur leiksins. Skotnýting HK var 44%.

- Markverðir HK vörðu ekki eitt skot í síðari hálfleik. Samanlögð hlutfallsmarkvarsla þeirra í leiknum var 7,7%.

- Markverðir Vals vörðu báðir ellefu skot í leiknum og voru báðir með minnst 50% hlutfallsmarkvörslu.

- HK skoraði fimm mörk í síðari hálfleik, þar af þrjú á síðustu 20 mínútunum. Eitt var þó svokallað „sirkusmark“.

- Markaskorun Vals dreifðist á ellefu leikmenn sem allir skoruðu að minnsta kosti tvö mörk í leiknum. Ef víti eru talin frá skoraði enginn þeirra meira en sex mörk.

- Valur komst tvívegis á 8-0 sprett í leiknum – bæði skiptin í seinni hálfleik.

- Sigurinn er sá stærsti í efstu deild karla í að minnsta kosti 20 ár. Árið 2007 vann Stjarnan 26 marka sigur á ÍBV, 44-18, en sigur Vals slær honum við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×