Ólafur Elíasson hannar ballett með Jamie xx úr The xx
Þórður Ingi Jónsson skrifar
Sýningar í Park Avenue Armory eru á afar stórum skala.mynd/úr fréttatilkynningu
Ólafur Elíasson mun sjá um sviðshönnun fyrir nútímaballettinn Tree of Codes, sem er samstarfsverkefni hans, tónlistarmannsins Jamie xx og balletthöfundarins Wayne McGregor. Sýningin mun fara fram í júlí í Park Avenue Armory í New York, en það er risastór salur þar sem listamenn fá tækifæri til að sýna verk á stórum skala.
Verkið er byggt á bókverkinu Tree of Codes eftir bandaríska rithöfundinn Jonathan Safran Foer, en í fréttatilkynningu um verkið segir að það muni „breyta skynjun áhorfenda á dansi í gegnum óhefðbundna sviðsetningu sem minnir á skúlptúr“.
Jamie xx er þekktastur sem trommari sveitarinnar The xx, sem tók upp nýjustu plötu sína hér á landi í ár en Wayne McGregor er einn fremsti nútímadanshöfundur heims.
„Augljóslega getur tónlist Jamies ekki verið til án hreyfingar og rýmis,“ segir Ólafur í tilkynningunni. „Augljóslega getur ballettgerð Waynes ekki verið til án hljóðs og rýmis. Augljóslega getur list mín ekki verið til án hljóðs og hreyfingar. Augljóslega getur sköpunargáfa breytt heiminum.“