Veiði

Eystri Rangá að verða uppseld í júlí

Karl Lúðvíksson skrifar
Fyrstu laxarnir í Eystri Rangá hafa verið stórlaxar
Fyrstu laxarnir í Eystri Rangá hafa verið stórlaxar
Síðasta sumar var mjög gott í Eystri Rangá og er svo komið að sárafáar stangir eru eftir í júlí.

Veiðin í fyrra var mjög góð en það komu 4.800 laxar á land úr ánni þrátt fyrir rysjótt tíðarfar og oft á tíðum erfiðar aðstæður við ána.  Það sem þykir athyglisvert við veiðina í fyrra er góð veiði snemmsumars en það komu hátt í annað hundrað laxar á land í lok júlí og veiðin fyrstu vikuna í júlí var að sama skapi mjög góð.  Mest af þessum laxi sem veiðist í byrjun tímabils er stórlax svo það er ekkert skrítið að veiðimenn sem hafa gert það gott á þessum tíma skuli sækja í Eystri aftur.  Sleppingar í fyrra gengu mjög vel og er reiknað með að sumarið núna verði síst lakara en í fyrra en frekar er reiknað með því að veiðin verði betri.  Það sem hefur gert gæfumuninn í ánni er að sérstaklega hefur verið gert út á að ná fyrstu löxunum sem ganga í klak til að byggja upp stofn sem er snemmgenginn.  Þetta er gífurlega tímafrekt og mikil vinna er á bak við sleppingarnar til að tryggja að þær skili sem bestum árangri en ljóst þykir að vinna síðustu ára er klárlega að skila sér.  Það sést bæði á veiðitölum og stærð þeirra laxa sem eru að veiðast.






×