Lífið

Gekk tískupallana fyrir L'Wren Scott

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Fyrirsætan Matthildur Matthíasdóttir sést hér á tískupallinum í New York árið 2011á sýningu L´Wren Scott.
Fyrirsætan Matthildur Matthíasdóttir sést hér á tískupallinum í New York árið 2011á sýningu L´Wren Scott.
„Ég gerði tvær sýningar fyrir hana árið 2011, hún var greinilega að fíla mig því hún bókaði mig tvisvar sinnum í röð,“ segir fyrirsætan Matthildur Matthíasdóttir sem vann fyrir fatahönnuðinn L‘Wren Scott í New York árið 2011.

L‘Wren Scott fannst látin á heimili sínu í New York á mánudaginn en talið er að hún hafi framið sjálfsmorð. Hún var unnusta Micks Jagger, söngvara sveitarinnar Rolling Stones.

Matthildur, eða Matta eins og hún gjarna er kölluð, ber fatahönnuðinum vel söguna og man vel þegar hún hitti L‘Wren Scott fyrst á hótelherbergi á Manhattan fyrir þremur árum. 



„Ég fór í mátun sem var á hóteli í Manhattan þar sem hún og fjölskylda hennar gistu. Ég man að ég labbaði inn og þar sat hún í kjöltunni á Mick Jagger, en ég hafði ekki hugmynd um að hún væri konan hans. Hann var mjög fínt klæddur og í hlaupaskóm við,“ segir Matta og rifjar upp kynni sín við parið.

„Hún sat mjög tignarleg í fangi hans, miklu stærri en hann. Svo lét hún mig máta fallegan kjól og hælaskó.“ Matthildur hefur unnið sem fyrirsæta í nokkur ár og flakkað um heiminn, þar sem hún sat meðal annars fyrir í auglýsingaherferð fyrir fatamerkið Diesel.

„L‘Wren Scott var mjög fín og megi hún hvíla í friði.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×