Viðskipti innlent

Þvertók fyrir að hafa haft áhrif á hlutabréfaverð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Vísir/Vilhelm
Björgólfur Thor Björgólfsson kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag og bar vitni í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Átti hann rúmlega 40% í bankanum á ákærutímabilinu 2007-2008 og hafði því hagsmuna að gæta varðandi verð hlutabréfa í bankanum.

Saksóknari spurði Björgólf út í hvort hann hefði gert eitthvað til að hafa áhrif á stöðuna þegar verð í hlutabréfum Landsbankans lækkaði í aðdraganda bankahrunsins. Sagðist hann ekki hafa gert það; hann hafi hins vegar rætt við stjórnendur bankans hvernig „bregðast ætti við óveðri“ en ekki hvernig hafa ætti „áhrif á veðrið.“

Var Björgólfur einnig spurður að því hvort hann hefði sérstaklega rætt við Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra, um framboð og eftirspurn eftir bréfum í Landsbankanum. Björgólfur sagðist ekki hafa gert það. Hann sagði framboð og eftirspurn ekki hafa varðað hagsmuni sína.

Saksóknari spurði svo að lokum hvort að nauðsynlegt hafi verið fyrir Landsbankann að kaupa eigin bréf rétt fyrir hrun.

„Ég hef ekki skoðun á því,“ svaraði Björgólfur.

Vitnaleiðslur í málinu halda áfram eftir hádegi í dag.


Tengdar fréttir

Bankastjórinn reiddi sig á eftirlitsaðila

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segist hafa treyst því að Kauphöllin, FME og innra eftirlit bankans myndu láta sig vita ef eitthvað óeðliegt ætti sér stað með viðskipti bankans með eigin bréf.

Björgólfsfeðgar bera vitni

Vitnaleiðslur hefjast í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans.

Ósáttur við að vera kallaður til sem vitni

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, baðst undan því að bera vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í markaðsmisknotkunarmáli bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×