ÍR-ingurinn Björgvin Þór Hólmgeirsson er markahæsti leikmaður Olís-deildar karla í handbolta að loknum sjö fyrstu umferðunum en Björgvin hefur skorað 61 mark í 7 leikjum eða 8,7 mörk að meðaltali í leik.
Björgvin Þór er 27 ára vinstri skytta sem hefur unnið sér sæti í íslenska A-landsliðinu með frábærri frammistöðu í upphafi móts.
Björgvin Þór lét sér nægja að skora fjögur mörk í síðasta leik en er engu að síður með sjö marka forskot á markalistanum enda með samtals 42 mörk í fjórum leikjum þar á undan.
Það er helst einn leikmaður sem Björgvin er ekki alveg búinn að stinga af en það er Eyjamaðurinn Theodór Sigurbjörnsson sem er kominn með 54 mörk í sjö leikjum.
Theodór er 22 ára örvhentur hornamaður sem stimplaði sig vel inn á síðasta tímabili þegar ÍBV varð Íslandsmeistari. Hann er yngri bróðir knattspyrnumannsins Eiðs Arons Sigurbjörnssonar.
Theodór skoraði tíu mörk í síðasta leik og vann þar með upp sex mörk á Björgvin í 7. umferðinni. Þriðji maðurinn til að rjúfa 40 marka múrinn í fyrstu sjö umferðunum var Akureyringurinn Sigþór Árni Heimisson.
Sjö félög af tíu eiga fulltrúa á topp tíu listanum þar af eiga ÍR og Hafnarfjarðarliðin Haukar og FH tvo menn.
Topplið Aftureldingar á ekki leikmann á topp tíu listanum en Jóhann Gunnar Einarsson situr í 11. sætinu. Jóhann Jóhannsson er eini annar leikmaður Mosfellsbæjarliðsins á topp 30 en liðið á síðan þrjá leikmenn til viðbótar með 18 eða 19 mörk.
Þrír leikir fara fram í Olís-deildinni í kvöld. Þeir hefjast allir klukkan 19.30 og eru: Fram - Valur, FH - Stjarnan og Afturelding - HK.
Björgvin Þór Hólmgeirsson, ÍR
í fyrstu sjö leikjunum
23-23 jafntefli við Val - 7 mörk
29-24 sigur á ÍBV - 8 mörk
26-22 sigur á Fram - 13 mörk
28-24 sigur á FH - 8 mörk
28-28 jafntefli við Hauka - 10 mörk
23-25 tap fyrir Aftureldingu - 11 mörk
30-28 sigur á HK - 4 mörk
Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV
í fyrstu sjö leikjunum
29-29 jafntefli við FH - 8 mörk
24-29 tap fyrir ÍR - 4 mörk
22-24 tap fyrir Aftureldingu - 8 mörk
33-32 sigur á Akureyri - 9 mörk
29-28 sigur á Stjörnunni - 6 mörk
34-22 sigur á HK - 9 mörk
24-30 tap fyrir Val - 10 mörk
Theodór hangir enn í Björgvin á markalistanum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Sveinn Margeir mögulega ekkert með Víkingum í sumar
Íslenski boltinn

„Tilefnið stórt og sterkt að landa sigri“
Körfubolti


Asensio skaut Villa áfram
Enski boltinn


Albert kom við sögu í naumum sigri
Fótbolti

„Ákveðnir í því að gefa þeim enga von“
Körfubolti

Embiid frá út leiktíðina
Körfubolti
